laugardagur, 3. janúar 2009

FERÐALOK - HEIMKOMA

Jólasól í Biskupstungum

Laugardagur 03.01.2009.
Ég er að reyna ná utan um hughrif mín í ferðalok eftir þriggja mánaða fjarveru frá Íslandi og það er ekki auðvelt. Heimkoman var köld og dimm og Ástarstjarnan sem lýsti landinu svo fallega á liðnu sumri er nú hulin á bak við næturský. 
Þótt óveðurskýin hafi verið að hrannast upp við sjóndeildarhring þegar við upphaf ferðalags okkar Önnu Siggu til Asíu þá sáum við þau ekki frekar en svo margir aðrir nema "veðurfræðingarnir" sem ljúga jú eins og stendur í danslagstexta Bogomills Font.
Undanfarna daga hef ég oft verið spurður hvað hafi staðið upp úr af því sem við upplifðum í ferðinni okkar og eins og svo oft hefur verið ýjað að því að heimkoman hljóti nú að standa upp úr - er það ekki?. 
Við höfum búið erlendis og ferðast talsvert og höfum ávallt tekið undir að þótt gaman sé að ferðast þá sé best að koma heim. Í fyrsta sinn verð ég að viðurkenna að "heimkoman" nú stóð upp úr - en ekki vegna þess að hún væri svo skemmtileg. Þvert á móti verð ég að viðurkenna að heimkoman var ömurleg og eiginlega get ég ekki sagt að ég sé kominn heim. Íslandið mitt og heimili sem ég kvaddi um miðjan september er horfið og landið sem mætti mér aftur um miðjan desember er allt annað land en ég kvaddi - og ég kemst ekki heim. 
Ég hef orðið fyrir áfalli og er öskureiður. Ég er reiður og tek svo heilshugar undir með mótmælandanum og Jóni Gnarr í áramótaskaupinu "Helvítis fokking fokk". Þessi upphrópun lýsir eiginlega mjög vel hvernig mér er innanbrjósts. Ég skil svo vel reiði fólks og þörf til að mótmæla og hef misst allt álit á forsvarsmönnum þjóðarinnar fyrir hvernig þeir hafa logið að þjóð sinni um ástandið þótt það komi betur og betur í ljós hve mikið þeir vissu. Hinir - þessir fjármálamenn sem hampað hefur verið fyrir efnahagslegan árangur reynast nú ekkert annað en ótýndir afglapar og fjárglæframenn,  blindaðir af von um skyndigróða á kostnað almennings.
Það er ekki hægt að bera lengur virðingu fyrir stjórnmálaforingjum né stjórnmáöflum sem borðið hafa þjóðina á rönd glötunar. Það er ekki hægt að bera lengur virðingu fyrir forseta sem hampaði þessum afglöpum og fjárglæframönnum. 
Ísland verður ekki heilt aftur nema að hreinsað verði til og ríkisstjórn Íslands fari frá og fólkinu verði gefinn kostur á að velja sér nýja forystu, nýtt fólk sem hægt er að treysta.
Geir, Ingibjörg og meðreiðarfólk verða að fara frá - öðru vísi næst aldrei sátt.
Í dag ætla ég að mæta á Austurvöll og mótmæla ástandinu og vona að sem flestir mæti.