fimmtudagur, 11. desember 2008

".......helvítis Íslendingar að mótmæla"

Þróun gengisvístölu frá 15.09 - 10.12.2008

Við tókum leigubíl heim í gærkveldi frá Tívolí. Við höfðum farið út að borða með Helle og Glenn, Lisbeth og Morten og Helle hafði valið Restaurant Vesuvio á Ráðhústorginu af því hann hentaði best út frá umferðartenginum. Við áttum fínt kvöld með krökkunum og ætluðum svo að ná leigubíl fyrir utan staðinn heim í íbúð. En því var ekki að heilsa. Hundruð manns létu öllum illum látuð á torginu þegar við komum út og óeirðalögreglan var að eltast við liðið út um allt torg. Við vissum ekki allveg hverju var verið að mótmæla og höfðum auðvitað strax áhyggjur af því að flugvellinum yrði lokað eins og í Bangkok og við kæmumst ekki heim fyrr enn eftir áramót. Alls staðar mótmæli eða fagnaðarlæti þar sem við komum.
Við þræddum okkur því varlega framhjá þessu "villta" fólki og upp að aðalinngangi Tívolís og náðum þar í bíl. 
Við spurðum að sjálfsögðu bílstjórann hvort hann vissi hvað gengi á þarna niðri á Ráðhústorgi og hverju haldið þið að hann hafi svarað?
Jú og án þess að vita uppruna okkar svaraði hann: "Det er nok nogle satans Islændinge der protesterer". 
Hér í Danmörku er mikið skrifað og rætt um skelfingarástandið á Íslandi. Við sem höfum verið fjarri frá því í um miðjan september vitum minna en Danir. Krakkarnir sem við borðuðum með í gær, Ole og Jytte og aðrir sem við höfum rætt við hafa miklar áhyggjur af íslenska ástandinu, landinu okkar sem hefur verið að þeirra sögn í klóm ótýndra glæpamanna um nokkurra ára skeið um leið og einfaldir stjórnmálamenn hafa verið hafðir að ginnungarfíflum. Hér fá íslenskir stjórnmálamenn ekki háa einkunn og því síður seðlabankastjórinn. 
Og við vitum minna en þeir.
Við erum spurð hvort við höfum ekki áhyggjur af því að fara heim og hvernig við höfum eiginlega komist af á þessari ferð okkar í ljósi fall íslensku krónunar og ástandsins á Íslandi.
Við höfum auðvitað haft áhyggjur, áhyggjur af fyrirtækinu mínu og frábæru starfsfólki sem virðist vera að missa vinnuna - það ömurlegasta sem ég hef þurft að gera um dagana er að segja fólki upp, mér þykir allt of vænt um fólk til þess að sætta mig við að þurfa að segja því upp.
Við höfum haft áhyggjur af öllum okkar góðu vinum og fjölskyldu og vonum auðvitað að allt lagist og þetta ömurlega ástand hverfi um leið og dagur lengist. Við höfum líka haft áhyggjur af okkur sjálfum  - hvort við gætum yfirhöfuð tekið út peninga til að ferðast fyrir, borða fyrir og lifa fyrir á ferð okkar um Asíu. Við höfum líka haft áhyggjur af ferðasjóði okkar sem átti að duga okkur þessa þrjá mánuði og gott betur. 
Og við erum að sjálfsögðu reið. Við erum reið af að vera komin í aðstöðu sem við höfum ekki sjálf komið okkur í. Við erum reið yfir að sparifé okkar og ferðasjóður hafi brunnið upp á undanförnum mánuðum af völdum óábyrgra fjármálaspekúlanta sem hefur tekist að hafa 300.000 manna þjóð að fíflum, svo miklum fíflum að forseti og fyrirmenn hafa meira en að segja borið þessa menn á brjóstum sér fullir stolts. Og svo reynast þeir það sem Anna mín kallaði "Rolla í fölsku skinni", vargar sem hafa með framferði sínu breytt einni ríkustu þjóð heims í fátækt og skuldugt land. Við höfum horft á krónuna lækka frá degi til dags í þrjá tæpa þrjá mánuði og áttum satt að segja erfitt með að brosa þegar hún fór að hækka nú í lok ferðar.
Lönd sem í hugum Íslendinga eru fátæk og verðlag þar lágt reyndust okkur bara frekar dýr þegar þangað var komið. Hver skyldi ætla að land eins og Thailand eða Víetnam séu með verðlag sem virtist hátt í okkar huga.
Tengdamamma hefur oft sagt þegar henni ofbýður vonska mannanna og óréttlæti heimsins að réttast væri að taka þessa menn og "hengja þá alla saman". Ég hef ekki alltaf áttað mig hverjir "þeir" eru og hef eiginlega aldrei gert ráð fyrir því að tengdamamma sé að tala um raunverulega hengingu, miklu frekar að réttast væri hengja þá upp á löppunum, þeim sjálfum til háðungar og öðrum til varnaðar.
Ég hef oft strítt henni á þessum ummælum en nú er svo komið að ég er henni hjartanlega sammála og legg til að og "þeir verðir hengdir allir saman" - þeir sem bera ábyrgð á því að slökkva gleðinnar ljós í hjörtum okkar Íslendinga.

þriðjudagur, 9. desember 2008

Wonderful wonderful Copenhagen

Þriðjudagur 9.12.2008 - kl 11:30
Við erum næstum því komin heim og FerðaPési þekkir eiginlega ekki annað heimili en CFMA38. Hann varð svaka glaður þegar við komun inn í íbúðina í gær.
Að baki var langt ferðalag. Eftir nótt í Bangkok komumst við með kvöldflugi á Doha í Qatar og aftur þaðan á Stokkhólm. Hvort flug um sig 7,5 klst og 2 stunda bið í Doha. Það var svolítið nýtt að stoppa á flugvelli í múslimsku landi þar sem sérstök bænaherbergi eru og kyngreind þar að auki. Annars var ekki mikið að sjá eða upplifa á Doha um miðja nótt. 
Lentum í Stokkhólmi um 6:00 að morgni sunnudags 7. december og misstum því mátulega af afmælisdegi systur minnar Birnu. Birna og Maddý systir Jónsa tóku á móti okkur og það var gaman að hitta fjölskylduna aftur eftir langa fjarveru. Lassi og Hedda vöknuðu við komu okkar og Bigó og Willy bættust við þegar líða tók á morgunn. Bibba og Lassi slógu svo upp afmælisveislu tvö um kvöldið fyrir okkur með góðum mat og rauðvíni - alveg frábært.
Stutt stopp í Stokkhólmi í norrænu gráviðri og kulda eftir 30 stiga hita í Thailandi. Við komumst í jólaskapið þegar við heimsóttum Steninge Slott og skoðuðum jólamarkaðinn - já "Nu er der jul igjen".
Bibba keyrði okkur svo á Arlanda flugvöllin um hádegið í gær, Maddý fór heim til Íslands enn við "heim" til Köben. 
Að sjálfsögðu tók Jytte á móti okkur á Kastrup, keyrði okkur "heim" á CFMA38 og fór svo og keypti inn í matinn fyrir okkur. Um kvöldið komu þau Ole og Jytte færandi hendi með kvöldmatinn og við áttum frábæra stund með þeim.
Það er gott að vera komin til Köben og næstum því heim. Við getum þó ekki neitað því að við bæði hlökkum til og kvíðum heimkomunni.
Nú er bara að njóta Kaupmannahafnar - jóla-Tívolíið er í fullum gangi og við finnum jólin nálgast. 
Veðrið er grátt og smá rigning og hitinn aðeins 3 gráður. Okkur finnst sólbrúnkan þegar vera farin að þvost af okkur.
Hér fáum við að heyra að Ísland hafi verið mikið í fréttum hér í Danmörku og þar sé skollin á alger kreppa fátæktar og myrkurs. Við ætlum þó að fara í bæinn á eftir og athuga hvort ekki sé hægt að kría út smá aumingjaafslátt fyrir fátæka íslendinga en það hjálpar líka að nú í lok þessa heimshornaflakks er mátulega kominn tími á að íslenska krónan fari hækkandi.

föstudagur, 5. desember 2008

Bhumibol Adulyadej (81) á afmæli í dag

Föstudagur 5 december 2008 - kl 19:45

Bhumibol á afmæli í dag

Er þetta amfælismaturinn og klikkaði einhver í stafsetningunni?

Jú kallinn á afmæli í dag og allt er skreytt alls staðar enda er hann dáður og dýrkaður hér í Thailandi. Í dag er frídagur í Thailandi og allir eru óvenju glaðir. Leigubílstjórinn sem keyrði okkur frá Hua Hin á Dusit Princess hótelið í Bangkok benti hvað eftir annað á gullinnrammaðar myndir af kongi á leiðinni og sagðist elska hann - já konungur er vinsæll. Því var því tekið með miklum harmi að hann skyldi ekki ávarpa þjóðina á afmælinu sínu eins og hann hefur ávallt gert. Adúllíadei er með kvefpest og treysti sér bara ekki til þess. Helstu dagblöð borgarinnar birta myndir af  Adúllíadei kongi,  meira að segja ein sýnir hann með sultardropa á nefi (eða kannski bara svitadropa) og fyrirtæki og stofnanir senda honum sína innilegustu kveðjur.  Það höfum við líka gert.
Okkur datt svona í hug hvort afmælismaturinn hafi verið þessi "laxasúpa" sem við birtum á matseðlinum hér fyrir ofan eða þýðir þetta kannski eitthvað allt annað?
Við erum komin aftur til Bangkok og eyddum tímanum í síðustu geislum sólar á laugarbarminum við hótelið okkar. Ferðin frá Hua Hin tók 2,5 klst með brjáluðum bílstjóra og hér verðum við þangað til við fljúgum til Doha í Qatar annað kvöld, þó ekki nema hálfum öðrum sólarhring seinna en við áttum pantað.  Það verður að teljast gott því margir ferðamenn hér hafa mátt bíða í meira en viku.
Aðgerðir PAD (Peoples Alliance for Democracy - sumir setja reyndar "Against" í stað Alliance for) mælast misjafnlega fyrir og segja margir að taka flugvallana í Bangkok hafi verið algerlega óþörf. Áhrifin á túrismann eru gífurleg. Okkur var sagt í Hua Hin að flestallar pantanir um jól og áramót sé búið að afturkalla. Nýting hótela er aðeins um 20% í dag en ætti að vera 70-80%. Þetta er algert hrun og við merkjum það vel því ferðamenn í Hua Hin voru svo fáir að við vorkenndum eiginlega fólkinu sem á afkomu sína undir ferðamennskunni. 
En nú bæði kvíðum við og hlökkum til að fara af stað aftur áleiðis heim. Við ættum að lenda í Stokkhólmi að morgni sunnudags og þar munum við hitta systur Jónsa tvær - gaman.

fimmtudagur, 4. desember 2008

Sidasta kvoldid i Hua Hin

Fimmtudagur 4. december 2008 - kl 19:15.
Vid sitjum her a bar nidri i midbae Hua Hin a afskaplega yndislegum ekki stulknabar (no girlie-bar). Islenskir stafir ekki til.
Spiludum golf a konunglega golfvellinum i Hua Hin i dag. Jonsi for a 23 punktum, ekki vitad um Onnu Siggu skor. Skemmtilegur vollur rett vid jarnbrautarstodina (konungleg lika). Her er allt konunglegt (kongurinn lika) og kongurinn a einmitt afmaeli a morgun 5. dec - verdur 81. ars. Hatidaholdin hofust i fyrradag og vid tokum ad sjalfsogdu thatt i theim. Vid jarnbrautarstodina voru allstadar myndir af kongi og drottningu og skilti sem a stod "Do good for the king". Vid stodum tharna i fjolmenninu og tokum myndir af einhverju sem okkur thotti ahugavert og adur en vid vissum vorum vid bedin ad skrifa nafnid okkar i "gestabok" afmaelisbarnsins og hengdum svo godar hugsanir og kvedjur a streng thar vid hlidina ad godum buddiskum sid. Tha kom ad okkur ljosmyndari og sagdi okkur ad staldra vid thvi taka aetti mynd af okkur med borgarstjoranum i Hua Hin og fylgdarlidi hans. Undan tvi vard ad sjalfsogdu ekki skorist. Nu birtist sjalfsagt af okkur mynd med fyrirfolkinu i Hua Hinskum fjolmidlum. En hatidaholdin hofust nakvaemlega 100 klukkustundum fyrir afmaelisdaginn med thvi ad byrjad var ad syngja afmaelissongva konungi til heilla og sungid samfellt i 100 klst. Thegar vid spiludum golfvollinn fyrir aftan jarnbrautarstodina i dag tha heyrdum vid annad slagid ad sungnir voru konunglegir afmaelissongvar.
Vid erum fost her i Hua Hin. Flugid okkar i fyrramalid var fellt nidur og okkur sagt ad vid kaemumst i fyrsta lagi 8. dec. Eg er buinn ad pressa a og Bibba systir segist hafa sed bokuninni breytt i 6. dec. Vonum ad svo se svo vid getum heimsott hana og glatt a 55 ara afmaelinu hennar. En her er sol og sumar og allt yndislegt.

miðvikudagur, 3. desember 2008

Konunglegar jólakveðjur frá Önnu Siggu og Jónsa í Hua Hin

Þar sem komin er december, jólalögin hljóma og jólaskreytingarnar komnar upp finnst okkur tilhlýðilegt og ekki seinna vænna að senda jólakortin í ár.

Jólin 2008



Við hjónin sendum öllum vinum og vandamönnum, nær og fjær,  til sjávar og sveita um land allt og einkum og sér í lagi í Grennd, okkar innilegustu jóla- og nýárskveðjur héðan frá sumardvalarstað konungsins af Thailandi í Hua Hin.  

Anna Sigga og Jónsi

mánudagur, 1. desember 2008

Sól í Hua Hin


Mánudagur 1. desember 2008 - kl 12:15
Við höfum dvalið hér á Dehevan Dara Resort "í" Hua Hin í tvær nætur. Hitinn er um 23-34 gráður og glaða sólskin. Við setjum "" utan um íið því það eru áhöld hvort við séum yfir höfuð í Hua Hin. Í bæklingnum stendur að fjarlægð frá strönd og Talk of the town se um 15-20 mínútur. Jú það er nokkuð nálægt því að vera rétt. Við erum í ca 30 mínútna akstursfjarlægð frá miðbæ Hua Hin og ströndinni og það er ekkert hér nálægt þessu resorti nema sykyrreyrsakrar, ekki sjoppa, ekki veitingastaður (nema á resortinu) - EKKERT. Að vísu er hægt að komast í bæinn með með hótelskutlu, sem fer á þriggja klukkutíma fresti en síðasti bíll "heim" er kl. 22:30. 
Við fórum inn í bæ í gærkveldi og nutum þess að ráfa um miðbæinn og skoða og fá okkur gott að borða. Við erum orðin hugfangin af steinhumar sem er mikið lostæti.
Lífið í miðborg Hua Hin virðist klárast um 10 leitið en þá hefst undirlífið sýnist okkur. Það var allavega góður gangur í því þegar við fórum heim á hótel. 
Enn einu sinni þurfum við læra af mistökunum. Hótel verður að vera miðsvæðis, eða í það minnsta nálægt lestar- eða metrostöð. Þegar maður ferðast vill maður vera þar sem lífið er - ekki í kirkjugarðinum.
Við ákváðum að skipuleggja síðustu dagana í Thalandi þannig að við værum 6 nætur á hverjum stað, Phuket, Samui og Hua Hin og pöntuðum og borguðum allt fyrirfram. Við sjáum svolítið eftir því því að kemur í veg fyrir að geta skipt um skoðun og flytja sig ef manni líkar ekki. Resortið hér í Hua Hin er t.d. dýrasta hótelið (3.500 Thb nóttin) en staðsetningin sú al versta.
Nú fer allur okkar tími í að velta því fyrir okkur hvernig og hvenær við komumst héðan frá Thailandi. Flugvöllurinn í Bangkok er enn lokaður - 88 vélar fengu að fara þaðan í morgun - tómar. Við eigum pantað far með Qatar airlines að morgni 5. desember en fáum engin svör fyrr en eftir tvo daga hvað gera þarf til að komast héðan.
Á meðan er bara að slaka á - gera eins og Thaiarnir sjálfir - brosa og láta eins og ekkert sé að.

laugardagur, 29. nóvember 2008

Haugasjór á Thailandsflóa


Sunnudagur 30.11.2008 - kl 03:00.
Jú þið lásuð rétt, það var haugasjór á Thailandsflóanum í dag. Við lögðum af stað frá bryggjunni hjá Big Buddha á norður hluta Samui eyjar um hálftvöleitið og við tók fimm tíma sigling um flóann með viðkomu á Kho Pha Ngan og Kho Tao og þaðan í land til Chumphon. 
Okkur var boðin sjóveikistafla þegar við komum um borð í frekar lítinn  bát sem tók um 80 farþega. Við þáðum töfluna og skoluðum henni strax niður. Farþegi fyrir aftan okkur var ekki viss um hvort hann þyrfti töflu - það færi eftir sjólaginu. Starfsmaðurinn sagði að við yrðum að reikna með talsverðri öldu. Við náðum í stóla miðsvæðis í bátnum og vorum heppin með það. Flestir farþeganna áttu skemmri ferð fyrir höndum en við. Flestir fóru af strax á Kho Pha Ngan eftir um klukkustundar siglingu því í kvöld er laugardagspartí á eyjunni og þau mjög vinsæl með bakpokafólks. Aðrir fóru af á Kho Tao til að læra eða stunda köfun. Þaðan var svo tveggja klukkustunda stím í land. Ölduhæðin var u.þ.b. 2-3 metrar og skall á bátnum svo lengst af sá eiginlega ekki út um glugga. Fólk ýmist lá á gólfi eða hékk grænt og grátt í sætum sínum með hvíta plastpoka með frönskum rennilás fyrir það sem út úr þeim gekk. Einhverjir stóðu bara á bakþilfari og héldu sér í borðstokkinn og létu dæluna ganga út yfir hann. 
Við vorum feginn landgöngunni - en mest feginn að hafa sloppið að mestu við sjóveikina.
En mikið asskoti er erfitt að pissa við svona aðstæður.
Frá Chumphon tók við tæplega fimm klukkustunda keyrsla í rútu til Hua Hin. 
Við erum nú komin inn á herbergið okkar - eða öllu heldur villuna - á Dehevan Dara Resort.
Hótelið er mjög flott og við hlökkum til að vakna í fyrramálið og skoða svæðið.

Talsverður sjór, skyggni ágætt




Laugardagur - 29.11.2008, kl 12:26
Svona mætti lýsa veðrinu hér á Samui eyju í Thalandi eins og það hefur verið undanfarna þrjá daga. Engin eða aðeins sýnishorn af sól, bara skýjað og vindur með tilheyrandi öldugangi. En hitinn er 27 gráður. Við vitum lítið af ástandinu í Bangkok, ástandið í Mumbai fær meiri athygli. 
Við reyndum einu sinni að berjast á sólbekkjunum hér á hótelinu og tókst að liggja í tvo tíma en vorum þá nokkuð vindbarin.
Toyota pallbíllinn hans Friðriks hefur komið að góðum notum. Við erum búin að keyra nánast til hvern akfæran spotta á eyjunni og þekkjum hana orðið vel. Þetta er falleg eyja og örugglega stórkostleg í sól og blíðu.
Vegir eru margir sundurrofnir hérna vegna rigninganna en það hefur ekki komið að sök.
Við fórum í gær á Bophut golfvöllinn. Hann er níu holu par 3 völlur, svolítill sveitarvöllur en skemmtilegur.  Borguðum 2 x 1.450 Thb í greenfee ásamt kylfumey og kylfupoka. Anna Sigga spilaði á 19 pkt en Jónsi á 14 pkt. Við vorum bara lukkuleg og skemmtum okkur vel. Sáum risakönguló við leit í röffinu og eiturgræna slöngu á leið yfir brú að 8. braut.
Mynd af slöngunni verður sett á netið á morgun ásamt fleiri myndum héðan af eyjunni.
Erum að bíða eftir bíl til að keyra okkur á ferjulægið. Förum til Hua Hin með bát og rútu í dag og verðum ekki komin fyrr en um miðnættið að staðartíma.

miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Við höfum ekki nennt að dansa og syngja í rigningunni


Miðvikudagur 26.11.2008 kl 12:30 staðartími á Samui.
Við erum enn inni á herbergi en stefnum á að koma okkur af stað rétt strax. Til að taka af allan vafa - við erum ekki í Bangkok - og því ekki í neinni hættu vegna mótmæla og óeirða við flugvöllinn en  vonum að sjálfsögðu að ástandið verði betra þegar við förum í gegn um Bangkok flugvöll að morgni 5. desember.
En hér hefur rignt svo mikið undanfarna drjá daga að það liggur við að við sjálf förum út að mótmæla rigningunni. Hér er bókstaflega allt á floti vegna rigninga og slotar líklega ekki fyrr en á morgun eða föstudag. Laugardagur skiptir ekki máli því þá förum við héðan hvort sem er.
Við höfum notið þess að hitta Friðrik hérna á Samui. Hann fór með okkur umhverfis eyjuna í gær og lánaði okkur bílinn sinn það sem eftir er dvalar hér á eyjunni. Við keyrðum svolítið í gær og ég upplifði í fyrsta sinn á æfinni að keyra i vinstri umferð - það var svolítið skrýtið en venst eins og allt. 
Förum af stað - með óhreinan þvott sem hægt er að láta vaska og strauja fyrir 30-50 Thb.
Og svo vonum við bara að sólin fari að sýna sig.
Einhverjir hafa kvartað yfir að geta ekki "commentað" bloggið okkar vegna skorts á notendanafni og lykilorði. Ekki þarf neitt notendanafn eða lykilorð - bara skrifa staðfestingarorðið og haka við nafnlaus - þá er hægt að "kommenta" - gjörið svo vel okkur þykir líka vænt um að fá athugasemdir.
JÓL/ASJ

mánudagur, 24. nóvember 2008

Regn í regnskógarbeltinu

Flugvallarbyggingin á Samui eyju

Við komum hingað til eyjarinnar Kho Samui í gærmorgun um 10 leitið. Flugvélin sem flutti okkur frá Phuket flugvelli var 60 manna skrúfuvél frá Bangkok Airways og tók flugið um klst.
Þegar við lentum var grenjandi rigning. 
Landgangi vélarinnar var skýlt með plastsegli og sömu sögu að segja um opin bíl sem sótti farþegana út í vél. Flugvöllurinn á Samui eyju er skemmtilega sveitó hitabeltisflugvöllur. Hann er opinn og það loftar um um salarkynnin en þennan dag var búið að draga niður öll segl og plsastdúka vegna rigningar. Við tókum leigubíl á hótelið okkar Baan Hin Sai Resort sem liggur mitt á milli Chaweng og Lamai strandanna. Þar er sömu sögu að segja - lobbýið var yfirbyggð verönd opin að öðru leiti og herbergin í húsum í brekku neðan við lobbýið og niður að ströndinni. 
Og það hélt áfram að rigna. 
Við lögðum okkur í tvo tíma - þá hafði stytt upp og við gengum um 50 mínútna leið inn að Chaweng (bænum) því það er ekkert við að vera á hótelinu okkar í grenjandi rigningu. Gestir eru fáir - kannski vegna regntímans en líklega helst vegna samdráttar í ferðamennsku út af heimskreppunni.  
Við borðuðum á strandveitingastað á hótelinu um kvöldið, en þá var orðið stjörnubjart og von um betra veður. En því var ekki að heilsa. Ég vaknaði upp við eldglæringar og þrumur um fimmleitið í morgun, síminn var dauður og komin úrhellisrigning.
Við héldum okkur heima til hádegis en fórum þá inn í Chaweng til að gera eitthvað. Settumst inn á Wave sem er frægur staður hér á eyjunni. Þar sátum við, borðuðum, drukkum, lásum og fórum á Internetið og dudduðum okkur í rigningunni, sem alltaf virtist aukast þegar við gáðum til veðurs.
Við uppstyttu fórum við aftur að stað en það dugði skammt. Aftur úrhelli og ég bauð Önnu Siggu á Starbucks til að flýja rigninguna. Þar dvöldum við svo í ca 3 klst og horfðum á rigninguna. Af tilviljun hittum við fimmta íslendinginn á för okkar um Asíu - og það sem er sérkennilegra við þekktum hann. Hann hefur aðsetur hér og bauð okkur í bíltúr á morgun að skoða eyjuna.
Þegar við komum heim á hótelið okkar í kvöld þurftum við bókstaflega að vaða elginn í brekkunni fyrir framan herbergið okkar og komust rennblaut inn úr rigningunni.

laugardagur, 22. nóvember 2008

Golf í nóvember

Við vildum endilega skrifa örlítið um golf. Það er nefnilega þannig að hér í Thailandi er hægt að spila golf í nóvember - þeas allt árið.  Og fyrst maður er hér á annað borð er nærliggjandi að panta sér rástíma. 
Við áttum pantaðan rástíma kl. 10:30 í morgun á Loch Palm vellinum sem er uþb 45 mín frá hótelinu okkar. 
Við náðum að slá um 40 æfingabolta áður en við byrjuðum og vorum aðeins þrjú í holli - við tvö og ein ameríkani. Með okkur fylgdu svo þrír caddíar, allt gullfallegar stúlkur sem sáu um að draga pokana okkar, velja kylfurnar okkar, segja okkur til um hvaða stefnu við ættum að taka og hve langt væri inn grín frá hverjum stað sem slegið var. Svo héldu þær á kódósinni meðan slegið var og gerðu smá grín að okkur þegar höggið lenti annarsstaðar en ætlað var. Þetta höfum aldrei prófað áður að hafa einka kylfusvein (kylfumey) í golfi en það verður að segjast að það er mjög þægilegt. Við höfum ekki komið á golfvöll frá því í byrjun september og vorum því dálítið óörugg, en þegar upp var staðið spilaði Anna Sigga á 24 punktum og Jónsi á 23 punktum sem er barasta allt í lagi fannst okkur.
Við höfum verið her á Phuket eyju í 5 daga og höldum áfram yfir á Samui eyju á morgun sunnudag. Strandlífið á ekki alveg við okkur og því var það góð tilbreyting að slá golfbolta í dag.  Vonandi eigum við eftir að fara aftur áður en við förum héðan - Thailenskir golfvellir eru bara flottir. Tókum eitthvað af myndum sem við reynum að setja inn á morgun.

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Litli Stokkhólmur - sænskar kjötbollur á Phuket


Litla Ítalía er í New York, Tromsö er stundum kölluð Feneyjar norðursins, Búkarest var um tíma kölluð litla París og Chinatown finnst í velflestum stórborgum heimsins.  Það má með sanni segja að hér á Kataströndinni á Phuket séum við komin til Litla Stokkhólms. Hér er annar hver ferðamaður sænskur, þjónarnir á mörgum veitingastöðunum slá um sig með sænskum frösum, klæðskerarnir flíka sænskukunnáttu sinni og ljósritaðar netútgáfur sænskra dagblaða eru seldar á 180-200 THB í verslunum. Hér er jafnvel boðið upp á sænskar pönnukökur og kjötbollur og sænska bari má finna hér. Hér ávarpa menn hver annan á sænsku en það eina sem vantar er Ikea. Þó getur vel verið að Ikea sé hér þótt við höfum ekki séð það, en við drukkum þó úr sænskum Ikeabollum á Bug & Bee í Bangkok. Já Phuket er sænsk sumarparadís og þótt Tsunami sem skall hér á eyjunni annan jóladag 2004 hafi markað djúp spor í sænska þjóðarsál þá halda þeir tryggð við svæðið.
Hingað erum við hjónakornin mætt og líkar bara vel. Við verðum á Phuket í sex daga og notuðum tækifærið í dag til að heimsækja Phi Phi eyjarnar þar sem kvikmyndin "The Beach" var fest á filmu (við höfum að vísu ekki séð hana). Þrátt fyrir sólarleysi og rigningu í lok ferðar tókst Jónsa að brenna svo hressilega að hann fer tæpast í mikla sól næstu daga. 
Tailand býr yfir mikilli fjölbreytni. Við áttum þrjá daga í Bangkok en vorum ekki sérlega hugfangin af þeirri borg (sjá ljósmyndabloggið okkar). Betur líkaði okkur heimsóknin til Kanchanaburi og Kwai þar sem  við fórum á fílsbak og klöppuðum tígrum og strandlífið á vonandi eftir að verða okkur skemmtilegt.

miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Rolla í fölsku skinni

Við höfum oft notið þess að heyra orðnotkun Bibbu systur minnar og stundum tölum við um Bibbisku. Við vorum með henni og Maddý systur (og köllunum þeirra líka) í Slóveníu í lok ágúst og það er með ólíkindum hvað veltur upp úr Bibbu á stundum. Þó ekki skrýtið eftir meira en 30 ára búsetu í Svíþjóð en hún má eiga það að hún er fljót að búa til orðasamband eða skýringu ef hana vantar rétta orðið - mér skilst að hún geri það líka á sænsku. 
Bibba situr á "sjónarbekknum" þegar hún fer á völlinn - ekki áhorfendastúkunni, hún tekur "kort" á myndvél, verður aldrei bílveik en getur orðið "ökusjúk" og finnst ákaflega rómantískt að horfa á "sólarniðurganginn". Svo eru það orðatiltækin.
" Æfing þrautir reynir margar" = Þolinmæði þrautir vinnur allar.
"Fyrr má nú aldeilis dauðrota en dauðþrota". 
Þetta skráðum við í Slóveníu og fannst fyndið - en hún á þó ekki heiðurinn af yfirskriftinni. Hana á Anna Sigga.
Eitthvað var hún að reyna nálgast úlfinn í sauðargærunni held ég en er þó ekki viss. Og þetta hefur ekkert með ferðalagið okkar að gera en mér fannst ég þurfa að losa aðeins um þessar hugsanir. 
Við eyddum síðasta kvöldinu okkar hér í Saigon eins og því fyrsta.  Við borðuðum góðan mat á La Dolce Vita Cafe á Continental hótelinu og fengum okkur ein G&T á 10. hæðinni á Caravelle hótelinu í miðborg Ho Chi Minh. Á næsta borði sat hæglátur maður - Amrikani held ég. 
Saigon býr yfir ákveðnum sjarma sem ég get ekki alveg skýrt út.
Og nú förum við með eftirmiðdagsvélinni til Bangkok í Thailandi - á vit nýrra ævintýra.

mánudagur, 10. nóvember 2008

Sæhestar í Mui Ne

Sandöldurnar í Mui Ne

Fiskimannaþorpið í Mui Ne

Það voru engir sæhestar á matseðlinum í Mui Ne, en hótelið okkar hét Seahorse Resort. 
Við erum sem sagt komin aftur til Ho Chi Minh/Saigon eftir 7 daga dvöl á sólarströnd. Okkur tókst á þriðja degi að fá herbergi með inniklósetti (og rennandi vatni) og viti menn eftir það fengum við engin mýbit. Allt varð gott og og við gátum aftur einbeitt okkur að megintilgangi dvalarinnar - að liggja í sólbaði og leti, lesa, leysa sudoku og hafa það huggulegt.
Hotelresortin á Mui Ne eru mörg mjög flott og okkar var það líka. Okkur finnst þau þó Mui Ne vera frekar fábrotinn staður sem enn er á frumstigi uppbyggingar í ferðamannaþjónustu og því frekar of hátt verðlagður m.v. gæði. Við uppgötvuðum á fyrsta degi að við vorum eiginlega kominn í rússneska ferðamannanýlendu. 95% gesta eru Rússar, 4% Þjóðverjar og 2 stk Íslendingar. Matseðlar voru allstaðar á rússnesku en verðin samt sem áður í US-dollurum.
Við fundum góðan sjávarréttamatsölustað, sem bar af. Hann var kannski svolítið kínki - svona Bavarískur, Tékkneskur matsölustaður með miðevrópskri túbutónlist og tékkneskum bjór sem þeir brugga sjálfir. Matinn er hinsvegar hægt að velja úr kerjum með rækjum, kolkrabba og öðru sjávarfangi. Og sjávarfangið svíkur ekki - við enduðum með að borða þar þrisvar sinnum og höfðum gott af. 
Það er ekki margt að skoða í nágrenni hótelsins. Við fórum þó hálfan dag og skoðuðum lítið fiskimannaþorp og sandöldur ásamt nýju golfsvæði sem er enn í uppbyggingu og verður þegar það er komið í notkun eftir ca 1 ár risastórt og flott svæði.
Í dag ákváðum við svo að keyra með leigubíl inn til Saigon í stað þess að taka rútuna. Við sáum ekki eftir því. Þó það hafi verið dýrara þá tók það mun skemmri tíma og í alla staði þægilegra. 
Við  sitjum nú á Hotel Mifuki kl. 8 að kveldi og leiðinni að fá okkur eitthvað í svanginn

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Á sigurdegi Baraks Obama Bin Laden

Það fór eins og flestir Evrópubúar vonuðust til - hægrimaðurinn Obama sigraði harðlínu hægri manninn Mc Cain. Megi það vita á gott - betri fréttir en óttast mátti.
Tímabundið heimili okkar á Seahore Resort
Ströndin "okkar"

Selurinn Snorri

Sjálf erum við sigurvegarar líka. Í dag náðum við í fyrsta sinn í ferðinni okkar að liggja nánast til óhreyfð á sólarbekk í allan dag. Og hví líkur sigur - bæði brunnin (og mýbitin) - lítum út eins og karfar. Maður lærir aldrei.  Byrjar fyrsta sólardaginn á sólarströnd alltaf á því að segja - muna að passa sig - bera á sig sólarvörnina og liggja bara þrjá tíma.  Græðgin vinnur alltaf - lágum (alla vega) fjóra og hálfan því það var soldið skýjað og við skaðbrunnin. Þetta gerðist líka síðast (og þar áður).

Við komum hingað á Seahorse Resort í Mui Ne í gær eftirmiddag eftir um 5 klst ferð í rútu frá Saigon. Það var falleg ferð en soldið of löng. Við fengum ágætis herbergi í Bungalow with a garden view. Það er gott eins og það nær. Fínt herbergi með svona úti/inni baðherbergi. Það þýðir að herbergið er úti en undir þaki og maður verður mýbitinn á rassinum við það eitt að setjast á skálina - Anna Sigga er alveg snarbrjáluð. Þetta væri allt í lagi ef maður hefði líka inni klósett en því er ekki til að dreifa. Við sofum undir mýflugnaneti en það hjálpar ekkert þegar maður þarf að pissa á þessu rómantíska útiklósetti um miðja nótt.
Hér fallegt og hér ætlum við að vera næstu fimm nætur og njóta sólar og hvíldar við lestur góðra bóka.

sunnudagur, 2. nóvember 2008

Caravelle Hótelið í Saigon

Við gengum um miðborg Saigon í dag. Hún er ekkert sérlega stór en ber ákaflega sterk einkenni þess að hafa verið áhrifasvæði Frakka. Húsbreiddir eru litlar við flestar göturnar og götumyndir geta verið ansi fjölbreyttar - sem er bara skemmtilegt og oft á tíðum aðlaðandi.
Þetta er svolítið eins og Reykjavík - misleit borgarmynd en fyrir vikið mjög fjölbreytt og skemmtileg.
Við fórum inn á sýningu sem sýndi niðurstöður hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag Saigon. Það er náttúrulega ógjörningur að setja sig inn í meginviðfangsefni slíkrar samkeppni á stuttum tíma en að sama skapi ákaflega sorglegt að sjá alþjóðlega strauma í skipulagi setja spor sín hér eins og annars staðar. Ef fer sem horfir mun Saigon breytast úr 2-3 og 4-6 hæða fjölbreyttri og vel þéttbyggðri borg í háhýsahrylling sem á undaförnum árum hefur verið svarið við borgarþróun um allan heim. Ég sé ekki gæði lausnarinnar og sé ekki hvernig þessi svörun við spurningunni geti leitt af sé borg sem er meira aðlaðandi en sú sem nú er. Annað hvort er spurningin röng eða öll svörin. Mér finnst eins og arkitektar heimsins verði að fara að taka sér tak og endurskoða afstöðu sína til borgarinnar og skipulags hennar. 

Ég ólst upp við daglegar fréttir frá Víetnamstríðinu og framan af við frásagnir af hetjudáðum Bandaríkjamanna í Víetnam. Víetnam og sérstaklega Saigon sem var "okkar" megin bjó yfir einhverri dulúð sem vakti snemma drauminn um "þangað langar mig að koma". Og hingað erum við komin. Áttuðum okkur ekki á því fyrr en eftir á að fyrsta kvöldið okkar borðuðum við á leiksviði "Hægláta Ameríkumannsins" á sjálfu Continental hótelinu í Sagion. Í kvöld heimsóttum við svo Caravellehótelið sem líka varð frægt í Víetnamstríðinu. Þar sátu erlendir fréttamenn á þaki hótelsins og skrifuðu fréttir úr stríðinu og sérstaklega er hótelið þekkt vegna hörmulegrar sprengingar sem varð þar og varð um 100 manns að fjörtjóni í águstlok 1964. Í kvöld fórum við á barinn á 9 hæðinni og þaki hótelsins. Þar drukkum við gin í tónic, hlustuðum á Salsatónlist ásamt öllum hinum ferðamönnunum sem gista Saigon þessa dagana og horfðum út yfir borgina.
Ég er held ég soldið skotinn í Saigon.

laugardagur, 1. nóvember 2008

Hægláti Ameríkumaðurinn

Það fer ekki á milli mála þegar gengið er um götur Saigon að bók Graham Green "The Quiet American" gerist hér.  Bókin er til sölu hjá öllum götubókasölum í ýmsum útgáfum og ég lét plata inn á mig einni fyrir 4 dollara (80.000 VND). Hún reyndist ljósrituð útgáfa á lélegum pappír en lesanleg. 
Við skoðuðum örlitið af borginni hér nálægt hótelinu í kvöld - aðallega til að fá eitthvað að borða.
Við fundum ítalskan stað "Ristorante Venezia" sem sýndi sig að vera hluti af Continetalhótelinu, ekki ódýrasti staðurinn í Saigon.
Við pöntuðum okkur bruscettu í forrétt og steik í aðalrétt, ís og kaffi á eftir og það sem mikilvægast er - við fengum rauðvín með matnum í fyrsta sinn frá því á siglingunni okkar um Yangtzefljótið. Á Yangtze kostaði ódýrt innflutt rauðvín ca 250 Rmb eða um 4.500 ísk. Hér gátum fengið ágætt ítalskt vín fyrir 250.000 VND eða um 1.750 ísk.
Það var æðislegt að panta nautasteik eftir meira en 6 vikna ferðalag um Rússland, Mongólíu og Kína. Við mundum allt í einu eftir því að við höfum bara ekki borðað steik frá því við fórum af stað frá Köben þan 21. sept. Þetta var því æðislegt og að fá brauð og smér á undan - nú þurfum við bara ostinn. Maturinn í kvöld var kannski ekki ódýrasti maturinn sem við höfum fengið.
Hann kostaði 870.000 VND sem jafngildir 6.000 ísk en vel þess virði og gott að fá eitthvað annað en Kínamat, KFC eða Pizza Hut.
Ekki það að kínverska eldhúsið sé vont - alls ekki. Kínverskur matur er oftast mjög góður - sérstaklega er ég hrifinn af gufusoðna eða léttsteikta grænmetinu þeirra - gæti næstum því lifað af því. Það er bara svo erfitt að fá ekkert annað hvort sem um er ræða morgun- hádegis- eða kvöldmat. Að borða fyllta dumplings og núðlurétti í morgunmat er bara ekki allveg okkar stíll.
Svo getur stundum verið hálf ógeðfellt að horfa á Kínverja borða. Um daginn stoppaði t.d bílstjórinn okkar við vegarkant og keypti núðlurétt í frauðplasti og súpu sem hent var inn um gluggan (beint fyrir framan mig) og súpan var í hálfglærum plastpoka. Ég horfði svo á hann borða núðlurnar sínar og hella svo súpunni í frauðplastformið og drekka hana - því engin var skeiðin og erfitt að borða súpu með prjónum.
Það er líka svolítið skemmtilegt að horfa á Kinverja borða með hníf og gaffli - já já þetta eru kannski fordómar en við höfum nú líka verið Kínverjum aðhlátursefni þegar við reynum árangurslítið að borða með prjónum. Kínverjar halda nefnilega á gafflinum með aðalhendinni (hægri?) og þegar þeir reyna að skera með hnífnum þá hafa þeir hann í vinstri og gengur því frekar illa að vinna á því sem skera skal.

Saigon kemur okkur þægilega á óvart. Við búum allveg í hjarta borgarinnar og kvöldlífið er skemmtilegt.  Saigon er miklu lágreistari en þær borgir sem við höfum ferðast um undanfarið. Hér eru varla háhýsi. Húsin í borginni 4-6 hæðir og borgin virkar aðlaðandi.
 

Ho Chi Minh City - Saigon í Vietnam

Við erum þá búin að kveðja Kína. Okkur sýndist á vegabréfsárituninni að ekki hefði má tæpara standa. Við komum inn í Kína að kveldi 28. september og við fórum þaðan 1. nóvember. Ég er ekki skarpur í stærðfræði en mér sýnist þetta 35 dagar - nákvæmlega það sem við lengst máttum vera og ekki máttum við koma hingað til Víetnam fyrr en 1. nóvember.
Við óttuðumst svolítið að koma hingað til Saigon. Í fréttum hefur verið greint frá miklum rigningum, sem reyndust þó mestar í Hanoi og veðurfréttir segja hér vera rigningu með þrumum og eldingum. En svo var ekki - þegar við lentum um fimmleitið var bjart og léttskýjað og ekkert mistur eins svo algengt var að sjá í Kína. Það er að vísu heitt - svona 28 stig.
Við búum á Spring hotel og það tók okkur um 50 mínútur að komast hingað frá flugvellinum, ekki af því að það er svo langt út á flugvöll - nei - það er bar mikil umferð hér í Saigon - vegalengdin er bara um 12-15 km.
Í lagi Stuðmanna segir  "Ég hef aldrei áður séð aðra eins gommu af reiðhjólum" - þetta varð þeim að orði þegar þeir sáu öll reiðhjólin í Köben.  
Í Kína og þá sérstaklega í Beijing í þjóðhatíðarvikunni varð okkur oft að orði "Ég hef aldrei áður séð aðra eins gommu af fólki" og það er satt fjöldinn var yfirþyrmandi.
En nú erum við í Saigon og vitið hvað "Við höfum aldrei séð aðra eins gommu af vélhjólum".
Kínverjar skiptu úr reiðhjólinu beint í bíla, en hér virðist fátæktin meir því hér eru það skellinöðrur, vespur og ýmis vélhjólaafbrigði sem dóminera borgarmyndina.
Kannski maður ætti að opna vélhjólaverslun hér í Saigon.
Saigon er vinalegri borg en flestar borgir sem við höfum heimsótt í Kína - en nú ætlum við að kynna okkur það betur.

föstudagur, 31. október 2008

Síðasti dagur í Kína-081031





Á siglingu á Perlufljóti

Matarmarkaðshverfið


Dæmigerð bygging á Shaiman eyju

Já nú er komið að því að kveðja Kína. Á morgun eigum við pantað flug til Ho Chi Minh í Víetnam. Við höfum eiginlega verið að bíða eftir þessu en áttum ekki ferðaheimild inn í Vietnam fyrr en 1. nóvember.
Við röltum um miðborg Guangzhou í gær en höfum tekið því rólega í morgun, pakkað niður bókum og fötum sem við ætlum að senda heim - sennilega eitthvað um 7-8 kg.
Það litla sem við höfum sé að Guangzhou hefur ekki heillað okkur neitt sérstaklega en afar skemmtilegt og fróðleg var þó að heimsækja Shaimaneyjuna þar sem hvítir menn máttu og áttu að búa á í gömlu Canton. Eyjan er að skilin að frá meginlandinu með síkí en snýr til suðurs út að Perlufljóti. Þar er eins og koma inn í einhverskonar trópíska evrópu síðustu aldarmóta (1900), öll hús bera einkenni evrópsk og amrísks arkitektúrs þess tíma. 
Við gggnum í gegn um markaðssvæði beint norður af eyjunni, sáum alls slags varning sem við kunnum lítil sem engin skil á og hefðum ekki treyst okkur til að borða - þannig getur maður sjálfsagt soltið í húsi fullu matar. 
Við búum á ágætis hóteli - Riverside hotel - niðri við Perlufljót austur af miðborginni. Við tókum bát niður á Shaimaneyju og borguðum 1 Yuan (17 íkr) pr mann fyrir ferðina. 
Það er ótrúlegur munur á hvað hlutir kosta hér í Kína. Við borðuðum á hótelinu í fyrrakvöld og drukkum þrjá litla bjóra með. Það kostaði 365 RMB sem er mjög dýrt. Í gærkveli borðuðum við ágætis mat handan götunnar á veitingastað og drukkum tvo stóra bjóra með matnum. Þar borguðum við aðeins 85 RMB (ca 1500 ÍKR). Við fórum svo á barinn á hótelinu og drukkum tvo einfalda Gin í tonic og borguðum 140 RMB (ca 2.400 ÍKR). Þetta eru miklar andstæður.
Útsýnið héðan af 19. hæðinni er fínt - við sjá vel yfir fljótið og getum fylgst með upplýstum bátunum sigla hér um á kvöldin.

miðvikudagur, 29. október 2008

Guanzhou - Canton


"Toys - The real  thing" myndaverk á sýningunni á MOCA

Kvöldljós á Nanjing Lu Dong

Við kvöddum Shanghai í morgun. Það tók um klukkustund að komast út á Hongqiao flugvöll.
Það var ekki með neinum sérstökum söknuði að við kvöddum Shanghai. Í gær fórum við með öndergrándinum niður Hua Hai Zhong Lu og gengum það upp í garðana "Peoples park" og Renmin garðinn sem liggur að Nanjing Lu þar sem hún hættir að vera göngugata. 
Garðarnir í Shanghai eru fallegir eins og við höfum reyndar séð í fleiri borgum. Bolli sagði okkur að Kínverjar væru snillingar í að gera garða. Hann sagði okkur frá svæði sem hafði verið girt af og öll húsin innan girðingar rifnar. Að því loknu var svo gerður garður og allt fullfrágengið á innan við sex mánuðum.  Þetta leika ekki margir eftir þegar haft er í huga að tré og gróður líta ekki út fyrir að vera nýplöntur - nei þetta er 10-15 m há tré í fullum blóma, fullvaxta klipptur runnagróður, tjarnir og allt tilheyrandi. Við heimsóttum lítið nútímalistasafn fyrir aftan óperuna sem heitir MOCA - fínt lítið safn og fín sýning. Við gengum svo austur Nanjing Lu inn í kvöldið og upplifðum þessa miklu verslunargöngugötu klæðast kvöldbúningum og allt lýstist upp. Við borðuðum kínverskan mat upp á fimmtu hæð veitingastaðar við Nanjing Lu - fengum ágætan mat á góðu verði (innan við 100 Rmb). Að því loknu gengum við heim á hótel, sóttum flugmiðana okkar til Guangzhou, upp á herbergi og pökkuðum. 
Dagurinn í dag var ferðadagur. Við vorum komin á völlinn um 10 leitið og áttum flug um 12 leitið. Síðan tók við rúmlega tveggja tíma flug og svo klst í flugvallarrútu inn á hótelið sem við höfðum pantað. Það hótel (JIN Zhou International buisness hotel) reyndist ömurlegt þrátt fyrir sínar 4* svo við skiluðum herberginu aftur og tókum taxa niður á Riverside Hotel við JanJiang Zhong Lu. Það hótel var miklu betra og reyndar örlítið ódýrara. Okkur líður vel á herberginu okkar á 19. hæð sem snýr út að Perluá og verðum hér í þrjár nætur þangað til við flúgum til Saigon í Vietnam.

mánudagur, 27. október 2008

Tongli og Shanghai


Við erum nú búin að vera hér í Shanghai í þrjár nætur og verðum aðrar tvær. Við eigum bókað flug til Guanzhou (Canton) þann 29. október og þaðan förum við líklega til Víetnam - þó ekki endanlega ákveðið. Anna Sigga sofnaði snemma og ég notaði því tækifærið og setti inn myndir frá Shanghai og síkjabænum Tongli sem við heimsóttum í dag. Það var notalegt að koma til Tongli úr ys og þys stórborgarinnar. Skoðið endilega myndirnar og gefið comment ef þið nennið - ég er loksins búinn að stilla comment-möguleikann rétt.
Við finnum það núna að við erum orðin dálítið þreytt eftir 6 vikna ferðalag og ógleymanlega upplifun, Kínverjarnir fara dálítið í taugarnar á okkur núna. Við finnum meira og meira fyrir okkar eigin fötlun sem felst í því að geta hvorki skilið né talað tungumál Kínverja - né lesið texta. Við ýmist geltum eða hreitum fúkyrðum í Rólexsölumennina - við borðum oftar Pizzu eða KFC, hryllum okkur við hrákahljóðin og langar mest að hella okkur yfir þessa hrákakalla. En því verður ekki neitað að KÍNA er stórkostlegt land.

laugardagur, 25. október 2008

Ferðamannafælur í Shanghai

Við komum til Shanghai síðla dags í gær eftir tveggja og hálfs tíma flug frá Guilin. Það tók okkur tæpa tvo tíma að komast á flugvöllinn frá hótelinu okkar í Yangshuo. Hitinn var aðeins 14 stig og það rigndi hressilega þegar við lögðum af stað frá Yangshuo og enn meira þegar við komum á flugvöllinn. Í Shanghai var hinsvega þurrt og yfir 20 stiga hiti. 
Við komum á hótelið okkar - The Bund Riverside" á Bejing Lu East um hálfsexleitið. Okkur var að sjálfsögðu boðinn bíll á flugvellinum á 200 RMB en enduðum með að borga 60 RMB í bíl sem ekið var skv. mæli.
Hótelið var ágætt en okkur finnst hótelin sem við höfum verið á hér í Kína ekki vera sérlega hreinleg þrátt fyriri að þau séu 4* hótel. Við fórum í gærkveldi niður á Nanjing Lu sem er "göngugatan" hér í Shanghai. Þar  var svo mikil ljósadýrð að það minnti á Times Square í New York. 
Vi erum orðin svolítið dösuð eftir tæplega sex vikna ferðalag og sama á við um kínverska matinn - það erfitt fyrir íslenskar brauð- og ostætur að fá ekki ost og alls ekki alltaf gott brauð.
Okkur finnst allt í lagi að borða kínverkst á kvöldin og í hádeginu en það er of mikið að borða kínverskt í morgunmatinn líka.
Annað sem líka er farið að fara óhemjulega í taugarnar á okkur eru "ferðamannafælurnar" sem reyna að pranga inn á manni úrum, bolum, leikföngum, töskum - já næstum hverju sem er. Þetta fólk er alls staðar og maður gengur varla 10 metra án þess að verða ávarpaður af einni fælunni. Ég er orðinn svo forhertur að ég dæsi og lygni aftur augunum og hristi höfuðið og svara jafnvel ruddalega  til þess að koma þessum andskotum í burtu en það hefur ekkert að segja.  
Við erum að fara yfir ferðaáætlunina okkar og hugsanlega endurskoða hana. Við erum hætt við að fara til Japan að sinni og það kann að enda með því að við förum beint héðan til Thailands án viðkomu í Vietnam.
Það hvorki bætir né léttir að lesa fréttir af efnahagsástandinu heima og spár um hugsanlega frekari lækkun íslensku krónunnar eru ekki uppörvandi. Okkur hefur þó ekki enn verið neitað um viðskipti með kortin okkar en upplýsingar um gengi eru mjög misvísandi og ekki hægt að kaupa gjaldeyri eins og ástandið er.
Við vonum þó það besta.

föstudagur, 24. október 2008

Viðkoma og V-merki

Kínverjar taka mikið af ljósmyndum eins og flestar aðra þjóðir. 
En það eru bara svo margir Kínverjar að þeir taka fleiri myndir en allir Evrópubúar, Amríkanar og Rússar samanlagt - af þeirri einni ástæðu að þeir eru fleiri.
Svo er einkennandi fyrir Kínverja að þeir taka myndir af öllu - ekkert er svo ómerkilegt að það verðskuldi ekki að vera ljósmyndað. Í Forboðnu borginni í Beijing sáum við t.a.m. Kínverja sem tóku myndir af ruslatunnum og stilltu sér upp fyrir framan þær. Blómabeð, inngangar að verslunum, uppstilling á sígarettum, matseðlar og styttur f. framan hús eru vinsælt myndaefni en nauðsynlegt að einhver sem ljósmyndarinn þekkir sé með á myndinni. Og sá sem situr fyrir sem myndefni gerir jafnan tvennt sem er algerlega ómissandi á mynd - hann snertir bómabeðið, ruslatunnuna, sígarettukartonið, styttuna eða matseðilinn með annarri hendinni, hallar dálítið undir flatt, brosir leyndardómsfullu brosi og krossleggur gjarna fæturna OG SVO GERIR HANN V-MERKIÐ með hinni hendinni.
Anna Sigga prófaði að gera eins og Kínararnir en gleymdi fótunum svo ég skar þá frá á myndinni og svo hefði hún líka mátt halla ofurlítið undir flatt.

fimmtudagur, 23. október 2008

Impression Liu Sanjie

Við fórum á ljósasjóið sem við minntumst á áðan. Þetta reyndist vera hin besta skemmtun.
Við höfðum ekki kynnt okkur sérstaklega hvað við værum að fara að sjá en sýningin var miklu tilkomumeiri en við höfðum vænst. 
Leikstjórinn er Zhang Yimong, sá sami og stjórnaði upphafsathöfninni á ólympíuleikunum í Beijing. Sviðið er náttúrlegt - sjálft Li fljótið og tindarnir sem eru svo einkennandi fyrir þetta svæði í Kína.
Það geta væntanlega fáir aðrir en Kínverjar gert svona sýningu. Fjöldi leikara og söngvara er yfir 600 manns og sýningin  sýnd í þessu útileikhúsi tvisvar sinnum á hverju kvöldi. Við sátum í ódýrari sætunum og borguðum 188 Rmb fyrir aðganginn en áhorfendasvæðið tekur eitthvað á þriðjaþúsund áhorfendur. Við mælum eindregið með þessari sýningu fyrir þá sem eiga leið um Yangshuo.
Meðfylgjandi myndir er fengnar af láni á netinu.














Frekari upplýsingar um sýninguna má sjá  á:  http://www.travelchinaguide.com/attraction/guangxi/yangshuo/impression-sanjieliu.htm

Rigningardagurinn

Eitthvað urðum við að gera okkur til dundurs þennan mikla rigningardag og fyrir utan nuddið þá brugðum við okkur inn í kínverskt vöruhús. Þar var allt milli himins og jarðar til fyrir lítinn pening. T.d rafmagnshella fyrir teketil og suðupott í einu tæki, skartgripir, furðulegir ávextir og sætindi og einhvers konar fiskur  í snakkpokum.  Þegar við vorum búin að skoða okkur um á neðri hæðinni rákum við augun í þetta skilti sem vísaði á efri hæðina á frábærri kín-ensku. Við þrömmuðum auðvitað upp og litum dýrðina eigin augum. KK (kínverska kaupfélagið) á allt af öllu en mætti kannski fá sér betri kín-ensku auglýsendur.
Við erum annars á leið á ljósasýningu hér í bænum sem okkur er sagt að sé bæði flott og skemmtilegt.

Thai Massage í Yangshuo

Ég hef eiginlega aldrei farið í nudd frá því ég hætti að synda á átjanda árinu. Ég prófaði að vísu baknudd í vor þegar við vorum í golfferð á Spáni, en fannst það óttalega lítilfjörlegt.
Við vöknuðum upp síðla nætur við þrumur og eldingar hér í Yangshuo og dag hefur rignt nær látlaust. Því var lítið um að vera og við hættum aftur við bambusbátasiglingu og reiðhjólaferð og Anna Sigga hálfpirruð á öllu þessu kíneríi, langaði bara í almennilegt rúnnstykki með osti og gott kaffi. En hér í Yangshuo - "dream on" - bara kínamatur í morgun-, hádegis- og kvöldmat.
Til að gera eitthvað skemmtilegt ákváðum við að fara saman í nudd - ekki þorði ég að senda Önnu Siggu aftur eina eftir æfintýrið í Guilin.
Niðri á Vesturgötu hér í Yangshuo er  þessi líka frábæra nuddstofa og hægt að velja úr 20 mismunandi tegundum nudds.

Við völdum Thælenskt 90 mínútna nudd.

Vistarverurnar voru kannski ekki þær hreinlegustu en verðið var viðunandi jafnvel á nýja genginu. Við vorum leidd inn í vistarverur og tvæ örsmáar kínverskar stúlkur byrjuðu óðara að berja á okkur. Mig undraði að ekki var ætlast til þess að við færum úr neinum fötum - við vorum bara nudduð í fötunum og hélt að það væri bara ekki hægt. En því var öðru nær. Þessar örgrönnu og smáu stúlkur hófust handa við að nudda nánast til hvern blett líkamans frá iljum til höfuðs. Þær boruðu fingrum og tám í mig á viðkvæma staði (og þá á ég ekki við við þennan eina viðkvæma) þannig að maður hálfemjaði. Þær toguðu og teygðu og nudduðu meira að segja fingurgómana. Þegar útlimanuddinu var lokið hófst fóddanudd á bakið. Nuddstúlkan steig upp á bakið á mér og gekk þar um á heimavelli - eða eiginlega dansaði upp á tá og niður á hæl og böðlaðist á bakinu á mér á jörkunum. Mér fannst þetta eiginlega bæði stórfyndið og um leið dulítið vont, en líður nú öllu betur eftir 90 mínútna meðferð.

miðvikudagur, 22. október 2008

Kínverskt rauðvín

Við höfum verið í rauðvínsbindindi.
Allt erlent rauðvín er dýrt í Kína, svo við höfum forðast þennan erlenda fjanda. Að vísu dottið svona tvisvar, þrisvar en það er nú ekki mikið á þremur vikum.
Í dag var kominn tími til að detta aftur - en við fundum ekkert erlent rauðvín.
Við ákváðum að reyna okkur við Kínverks rauðvín sem við höfum þó verið vöruð við hvað eftir annað. Við duttum niður á 1995 árganginn af Cabernet Frank Great Wall - og vitið hvað vínið er bara ódrekkandi. Við vitum ekki hvað það hefur verið að gera í 15 ár - þetta er og verður ódrekkandi fjandi. Svo okkar ráð er - EKKI DREKKA KÍNVERSK RAUÐVÍN.
Gamla heimabruggaða rauðvínaið okkar var skömminni skárra.


Endur og tekningar


Við erum en í Yangshuo og áttum góðan en langan dag í dag. Við fórum eldsnemma í morgun (7:15) af stað með minibus til LongJi og skoðuðum hrísgrjónaakra og ættbálkaþorp. Þetta var mjög skemmtilegt, 700 ára uppbygging hrísgrjónaakra í hlíðum fjalla var ótrúlega fallegt að sjá og ættbálkaþorpin bara nokkuð skemmtileg innan þeirra marka sem slík þorp eru. Því þau eru bara túristaleikur. Þarna í hlíðunum búa nokkrir ættbálkar, hver með sín sérkenni, sem kínversk yfirvöld reyna að varðveita. Við túrhestarnir fáum svo einhverskonar grísaveislustemmningu út úr öllu saman og skoðum kellingar í þjóðbúningum selja einhverskonar túristaglingur.
Það versta við svona ferðir eru endurnar og  einkannlega endurtekningarnar. "Enskumælandi" Kínverskir leiðsögumenn virðast allir fara í einhverskonar skóla þar sem þeir læra eitthvert afbrigði af "ensku" - gæti trúað að það væri "kín-enska". Þeir eru flestir illa talandi og - það sem verra er - þeir hafa lært að endurtaka allt sem þeir segja a.m.k. tvisvar. þetta er auðvitað óþolandi og fyrir vikið missir maður áhugann á því sem þeir eru að segja eftir augnablik. Síðan reyna þeir að ná aftur athygli með því að spyrja okkur túrhestana hvað við höldum um hitt og þetta og þá fær maður allveg bólur. ímyndið ykku einn leiðsögumann spyrja svona ca 12-15  hesta um hitt og þetta (og þeir fara allan hringinn).
Svona gæti stutt lýsing kínensks leiðsögumanns hljómað.
"Ví ar ná koming tú - komíng tú - a træbal villigs - a træbal villigs. Ðe villigs - ðe villigs is verí bjúífúl- verí bjútifúl - and ví vil gó - ví vil gó - trú ðe villigs - trú ðe villigs- and mít - and mít -ðe lókal pípol - ðe lókal pípol................."
Þarna var mín athygli gersamlega horfin og ég farinn að geyspa.
Annars rigndi í dag en það var ókei því hitinn er yfir 25 gráður. 
Við reynum að setja einhverjar myndir inn á ljósmyndasvæðið á eftir.
Ef þið viljið beinan tengil þá prófið þetta: http://web.me.com/jonsi2/Site/Ljósmyndir_Photos/Ljósmyndir_Photos.html

JÓL/ASJ

þriðjudagur, 21. október 2008

Mýs, hundar og menn í Yangshuo

Anna Sigga var ný búin að sporðrenna síðustu djúpsteiktu smárækjunni er henni var litið inn á gólfið á veitingastaðnum. Og hún varð grá í framan. Á gólfinu var pínulítil mús - eiginlega hálfgerð rækja - sem hljóp um gólfið. Allt í einu vara matralystin og löngunin til að sitja áfram á þessum annars ágæta veitinga stað með öllu horfin. Borguðum reikninginn - 78 Rmb - og flýttum okkur burtu.
Og það er haft fyrir satt hér í Kína að hundar séu gjarna á matseðlinum - eins og reyndar flest sem gengið hefur, synt eða flogið hér á jörð. Kínverji hittir annan Kínverja með hund og segir "en hvað þetta er fallegur hundur". Hinn svarar "já og svo er hann líka ætur".
Hvar sem maður gengur um á götum hér í Yangshuo eru sölumenn sem reyna að selja allt sem hægt er að hugsa sér og við erum t.d orðin dulítið þreytt á að heyra "Jinglebells" og "meistari Jakob" spilað á alskyns hljóðfæri og í flestum tilfellum falskt.
Eitt af því fyndna sem þeir segja er "Hallo-Búdda" í belg og biðu í tilraun sinni til að selja manni litlar búddastyttur, eða "MAYBELATER"  í þeirri von að maður komi aftur og láti glepjast.
En hvað sem öðru líður þá er mjög fallegt í þessum pínulitla litla bæ sem Yangshuo er. Hér býr óvenjufátt fólk - aðeins 60.000 manns. Bærinn er byggður inn í og umhverfis allt að 100 metra háa steindranga sem umlykja allan bæinn og fær fyrir vikið mjög sérstakt yfirbragð. Ætli þetta sé bara ekki Hafnarfjörður þeirra Kínverjanna - "Bærinn í hrauninu".

sunnudagur, 19. október 2008

Bílar, Bátar og Brúðhjón í Guilin

Fáar borgir hafa að öllum líkindum fallegri bæjarstæði en Guilin. Þangað komum við seint í gærkveldi eftir langa og erfiða ferð í lest í meira en 13 klst.
Vöknuðum í morgun og sáum bara fegurð þegar við litum út um gluggan á herberginu okkar.
Skoðuðum borgina í dag í fylgd kínverskrar leiðsögustúlku. Hún talaði nokkra ensku en það er svolítið gaman að heyra Kínverja tala ensku. Hún notaði "allmost" og "maybe" mikið og oft erfitt að átta sig á samhenginu. "your hotel is allmost three star - maybe". Að segja þetta við þreyttan og pirraðan ferðalang er ávísun á leiðindi og þau urðu í gærkveldi. Við fengum að vísu betra hótel eftir að ég hafði æst mig upp. Og þá sagði hún það vera "almost" og "maybe" four star. 
Við föttuðum fyrst seint í eftirmiddag að "allmost" átti að oftast að vera "allways" eða "at least", svo að næstum því 4 stjörnu hótel - var í raun a.m.k 4 stjörnu hótel. 
Ég bauð Önnu Siggu upp á heilnudd á hótelinu í kvöld. Enn einn miskilningurinn. Ég sendi Önnu niður en þá birtist allt í einu nuddkona uppi á herbergi hjá mér og fór eitthvað að nudda í mér. Mér tókst að senda hana í burtu. 
Anna Sigga endaði hinsvegar niðri kjallara í herbergi með hjónarúmi þar sem nudd (að vísu) kona barði á henni - en Anna Sigga var viss um það þegar hún kom upp aftur að þetta var ekki staður fyrir kvennanudd. Hún var eini kvenkúnninn og heyrði undarlegan karlahlátur í næstu herbergjum á meðan nuddinu stóð.  Engar myndir eru til af þessu en skoðið ljósmyndasíðuna okkar - þar eru nýjar myndir frá Guilin.

föstudagur, 17. október 2008

Spitting Image of China


Þar sem við sitjum hér síðla kvölds á hóteli í Wuhan í Kína langaði okkur aðeins að losa okkur við hrákahryllinginn. Okkur er sagt að Kínverjum hafi verið kenndir ýmsir "mannasiðir" í tilefni Olympíuleikanna. T.d. að stilla sér upp í röð, kúka á vestrænum klósettum og gleypa eigin hráka.
Þetta hefur tekist bærilega. Kínverjar í Peking voru nokkuð góðir í að standa í röð. Við sáum þá ekki á klósettinu, en við heyrðum og heyrum þá daglega rsækja sig með miklum tilþrifum, hvort sem er á götum úti í rútum eða leigubílum.  Og á eftir fylgir líka þessi grængula slumma og áður en maður veit af er hægri skórinn komin á kaf í þenna viðbjóð. Sennilega höfum við bara verið heppin að fá ekki á okkur hráka. Okkur finnst þetta eiginlega verra en helvítis hundaskíturinn forðum daga í Köben. 
Það er svo skrýtið með þessa þjóð að hú er í senn með eindæmum þrifaleg og svo andartaki seinna subbusóðar. Í rútunni í dag hræktu nokkrir farþegar út sér hýði utan af fræjum, hentu appelsínuberki á gólfið og tómum plastpokum út um gluggan. Á næsta andartaki sáum við konu með viskinn sópa hraðbrautina úti í miðri sveit.
Hana nú og hafið þið það.

sunnudagur, 12. október 2008

Xian - Leirherinn, silkiverksmiðja og fleira

Við fórum að skoða Leirherinn, sem er safn ca. 25 km austur af Xian og borguðum 500 Rmb fyrir bíl, bílstjóra og aðgang að safninu. 

Bílstjórinn var mikill sölumaður og sjálfsagt á prósentum hjá ýmsum aðilum, því hann byrjaði á að fara með okkur á verkstæði sem býr til eftirmyndir af leirhernum, húsgögn ofl. Þar gátum við leirstyttu í fullri líkamsstærð og "það kostaði lítið sem ekkert að senda heim til Bingdao (íslands). Við keyptum pínulitla afsteypu fyrir kurteisissakir en sáum eiginlega strax eftir því, því nú þurfum við að burðast með lítinn kall með okkur um Asíu.

En þetta var ekki allt. Næsta stopp var í silkiverksmiðju þar sem við vorum leidd í allan sannleika um hverning silkið verður til, sáum hvernir spunninn er þráður og hvernig búnar eru til silkisængur. ÚPPS.

Þar fundu þeir veikan blett. Áður en við vissum af vorum við búin að kaupa tvær silkisængur sem hvor um sig vegur 1 kíló - ekki var boðið upp á heimsendingu. Svo nú erum við komin með tvær silkisængur og ein leirkall að burðast með.

Eftir stutt hádegishlé komumst við loksins á safnið sem var tilgangur ferðarinnar. Við kláruðum það á ca 3 klst. og börðumst eins og heyrnarsljó og sjónlaust fólk til baka til þess að kaupa ekki allslags drasl á leiðinni til baka - og okkur tókst 

Næstum því.

Á leiðinni heim á hótel spurði okkar ágæti vinur bílstjórinn Jack (skrítið nafn í Kína) hver för okkar væri heitið frá Xian. Við svöruðum því. Hann spyr hvort við séum búin að kaupa miða - Og ÚPPPPS - Við keyptum af honum tvo flugmiða til ChongQing á þriðjudag - og bíðið við - Þar tekur á móti okkur John - vinur Jack´s sem ætlar að selja okkur miða í siglingu niður Yangtze fljótið.

Kannski erum við auðveld bráð - kannski - Við vitum þó að það verð sem við borguðum fyrir flugmiðana var sama og /eða ódýrara en það ódýrast sem við fundum á netinu upplýsingar þeirra um verð í siglunguna er mun hagstæðara en verð sem við höfum séð á netinu fyrir sömu báta. 


Myndirnar af Leirhernum eru komanr á ljósmyndasvæðið okkar og smá blogg þar með.

laugardagur, 11. október 2008

Komin til Xian í mið-Kína

Við komum hingað til Xian með næturlestinni í morgunn. Megintilgangurinn er að heimsækja Leirherinn sem er hér fyrir utan borgina og það ætlum við að gera á morgun.
Í dag heimsóttum við Múslimahverfið sem er hér rétt hjá hótelinu, fórum í stóru Moskuna og virtum fyrir okkur mannlífið.
Hér er mikil mengun og sá ekki til sólar í dag.
Við höfum sett inn fleiri myndir á ljósmyndsíðuna og hvetjum ykkur endilega til að skoða.
Nýjasta safnið er hérðan frá Xian og nýja Óperuhúsið í Beijing

fimmtudagur, 9. október 2008

Síðasta kvöldmáltíðin í Peking

Þetta er ekkert kristilegt.
Við vorum á leiðinni út að borða þegar Óli og svo Stella birtust á Skype. Kvöldmáltíðinni var því frestað þar til fjölskyldufundum var lokið. Á endandum var klukkan svo margt að við borðuðum á herberginu - það sem til var - hnetur í dós, kartöfluflögur (serveraðar í ísfötu), rauðvínsflaska úr Friendship Store. Hollur matur og góður fyrir framan tölvuna.

Dagurinn í dag var rólegur. Við hittum Sigrúnu Magnúsdóttur sendaherrafrú (við vitum að henni þykir vænt um að titillinn fylgi með) Írlands hér í Kína. Hún kom til okkar á hótelið og við fórum með henni á Pearl Market á svörtum bens með einkabílstjóra (kínverskum - hvað annað).
Það var ótrúlega gaman að hitta Sigrúnu, sem við höfum ekki séð í mörg ár, en gátum okkur þó til að þau séu færri en átta því þá hvarf puttinn hans Jónsa og það mundi Sigrún.
Sigrún bauð upp á lunch, sýndi okkur sendiráðið og fór svo með okkur í bíltúr á sínum 16 ára gamla Heklubíl, sem kominn er til Kína frá Íslandi og þó aðeins ekinn 13.500 km. Sigrún fór með okkur í Gaobeidan Classical Furniture Street. Þar skoðuðum við verskstæði og verslanir sem gera upp gömul húsgögn. Mjög skemmtilegur dagur.

Í gær var það múrinn við Badaling. Þangað fórum við í hópi kínverksra ferðamanna. Við vorum send í bobsleða bæði upp og niður en þess á milli gengum við múrinn sem liðast þarna um fjallshryggina og nutum útsýnis í kristaltæru og sólbjörtu veðri - og íslensku roki. Á eftir var boðið til matar og þar sátum við ein meðal kínverjanna sem hlógu að prjónafærni okkar.

Við höfum náð að skoða Lamahofið sem var notleg upplifun og stefnum nú á Xian með næturlestinni annað kvöld. 
Við höfum sett mikið af ljósmyndum inn á ljósmyndasíðuna okkar og hvetjum ykkur til að skoða og gefa okkur athugasemdir - því það er svo gaman.
  

mánudagur, 6. október 2008

Beijing-Peking-Beijing-Peking-Það er nú það

Vika er liðin síðan við komum fyrst til Peking. 
Þá tók á móti okkur slíkt mannhaf að við urðum hálf skelkuð. Nú viku seinna hefur fólki fækkað til muna því þjóðhátíðarviku Kínverja lauk í gær. Þeim nægir ekki einn 17. júni - nei þeir þurfa heila viku. Kínversku ferðamennirnir eru farnir heim og heldur fleiri hvít andlit sjást nú hlutfallslega.  
Við höfum náð að heimsækja Forboðnu borgina, Himinhofsgarðinn, Sumarhöllina, Olympíuþorpið og að sjálfsögðu borgina sjálfa eða það litla brot sem hægt er að sjá í svona stórborg. 
Það er gott að vera á hóteli við metro stöð, því þó að það sé ódýrt að taka leigubíl þá getur slík ferð tekið langan tíma í þeirri umferð sem er í borginni. Metró er miklu fljótlegri - muna - finna hótel nálægt metró. 
Við erum hægt og rólega að átta okkur á matnum hérna. Kínverjar eru ekki vanir brauðáti og mjólkurdrykkju. Við fundum þó bakarí við hótelið en mest af bakkelsinu er sætt eða brauð fyllt einhverju óskilgreindu gumsi. Yogurt er til en við höfum bara ekki þurft þess með. Í kvöld borðuðum við á veitingastaðnum "Yuelu Mountain Dining Place" vestan við Qian Hai vatnið.
Þeir eru með s.k. Hunan eldhús sem er svo sterkt að meira að segja Sichuanbúar þykir nóg um - og eru þó þekktir fyrir sterkan mat. Við uppgötvuðum þetta of seint. Kjúklingarétturinn reyndist mestmegnis vera chilli og á endanum játuðum við okkur sigruð - þetta gátum við bara ekki borðað. Okkur hæfði best létt soðið spergilkál og tómatar og hrísgrjónin.
Og allt skal borða með prjónum. Það hefur reynst Önnu Siggu erfiðara en mér en mér sýnist þetta allt vera að koma hjá henni.
Af því sem ætlum okkur hér í Beijing/Peking er aðeins eftir að heimsækja Múrinn og Lamahofið. Við höfum tvo daga til þess því við stefnum á að fara til Xian með næturlest á fimmtudagskvöld.

föstudagur, 3. október 2008

Það ku vera fallegt í Kína - þar keisarans hallir skína

Í dag höfum við dvalið fjóra í Beijingborg. Við ákváðum að skipta um hótel eftir þrjá nætur á Bejing King´s Joy hótelinu sem er við Meishi Jie. Það hótel var ágætlega staðsett en frekar spartönsk herbergi, án skápa og ekkert pláss nema á rúminu sjálfu. En staðurinn var fínn - mikið líf - reyndar svo mikið að okkur varð um og ó í allri fólksmergðinni.
Nú erum við komin á Novotel Xinqiao Beijing rétt við Chongwenmen metróstöðina austan við Tiananmen torgið. Fínn staður og betra hótel sem við fengum á ca 610 RMB nóttina.
Við heimsóttum Olympíuþorpið í dag og skoðuðum sértaklega "hreiðrið" og sundhöllina.
Hreiðrið er magnaður arkitektúr. 
Við settum myndir inn á ljósmyndasíðuna okkar - svo endilega kíkja þangað.
Á morgun stefnum við á Sumarhöll keisarans og kannski eitthvað meira ef tími gefst til.  Annars er alveg ótrúlegt hvað maður gengur mikið hérna, borgin er gríðalega stór og þegar maður er lagður af stað yfir götu þá er minnst 1/2 km í næstu gatnamót.
Klukkan að verða 24:00 og tími til að fara sofa.

þriðjudagur, 30. september 2008

Island er st'orasta land i heimi

Neihei.
K'ina er st'orara.
Vid f'orum 'i forbodnu borgina 'i dag og 'a Tianmen torgid.
Vid nenntum ekki ad skoda Mao - hann er jafndaudur og Lenin i Moskvu sem vid nenntum heldur ekki ad heimsaekja. Tha hefdi FerdaPesi ordid brjaladur.
En vid forum i Forbodnu Borgina og ................................
Thad sast naestum thvi ekki i hana fyrir f'olki. Tv'i h'er er n'og af f'olki- allstadar- 'ut um allt, hvar sem er, hvert sem th'u l'itur og vid erum svo threytt ordin 'a f'olki ad thad er gott ad vera komin inn 'a h'otel.
En Forodna Borgin er st'or og l'ika st'orkostlegt mannvirki hvernig sem 'a hana er litid.
Thar er haegt ad ferdast 'i tvo daga 'an thess ad skoda sama stadinn aftur.
Ef Ing'olfstorg er st'ort th'a g Raadhuspladsen st'orara og Rauda Torgid 'i Moskvu enn st'orara - en th'oa adeins p'inu l'itlid vid hlidina 'a Forb. Borginni.
Thad er ekki haegt ad l'ysa staerd Beijingborgar - madur verdur bara ad sj'a hana sj'alfur til ad reyna ad skilja hvad h'un er st'or = einhver sagdi okkur ad Beijing vaeri jafn st'or og Belgia.
Thegar madur loksins var kominn 'i gegnum Forb. Borgina fr'a sudri til nordurs og horfdi yfir hana fr'a 'uts'ynsisvaedi 'i gardinum fyrir nordan hana, th'a var sudurasti hlutinn falinn 'i mistri.

mánudagur, 29. september 2008

Siberiulestin

Vid erum loksins komin til Beijing eftir sex daga storkostlega ferd i Siberu lestinni.
Thad er alveg sama hvar borid er nidur. Ferdin er eitthvad sem vildum ekki hafa verid 'an.
Moskva var storkostleg. Vid heimsottum ad sj'alfsogdu Kreml og rauda torgid, Gum og roltum um midborgina. Helsti gallinn var ad hotelid var svo langt fra midborginni ad thad tok okkur taepa tvo tima ad komast a milli.
Sidan hofst sj'alf lestarferdin og t'ok taepa sex daga ;i gegn um storbrotid landslag Siberu, sem skartadi sinu fegursta i haustlitunum. Thegar vid komum i gaer inn i Mongoliu var thad dalitid eins og ad koma heim. Grodursnautt landslag sem minnti a halendi Islands, hesta- og fjarhopar, en kameldyrin kannski ekki alveg eins og vid eigum ad venjast.
Og nu er thad Beijing med ollu mannhafinu. Vid hofum sed fleira folk idag en finnst a ollu Islandi og meira til.
Erum 'a 'ag;tis hoteli midsvaedis i Beijing = stutt i allt sem vert er ad skoda - og vid komumst i sturtu i fyrsta sinn i 6 solarhringa - AEDI!!!!!

fimmtudagur, 18. september 2008

Intermezzo í Kaupmannahöfn

Við erum komin til Köben og dveljum nú í íbúðinni CFMA38 þar til sunnudag. Þá hhöldum við til Moskvu og hefjum ferðina löngu. Við bíðum nú eftir vegbréfsáritun til Vietnam en hinar áritanirnar eru komnar í passana - þ.e. til Rússlands, Mongólíu og Kína.
Við erum að mestu búin að kaupa það sem vantaði, s.s. góða skó, nýjar töskur ofl.
Viðð notuðum líka tækifærið á meðan við erum hér í Köben að kaupa hluti fyrir íbúðina á CFMA. Nú eru komin fleiri ljós, speglar, púðar, sængurteppi ofl. og íbúðin verður vistlegri í hvert skipti sem við komum í hana.
Við prófuðum nýju hjólin sem Siggi og Birna keyptu. Þau eru flott og hraðskreið en hnakkarnir svo slæmir að okkur verkjar bæði á vissum stað.

Látum flylgja með myndir úr íbúðinni.
Nýji garðurinn er að verða mjög flottur.















Veðrið var svo gott í gær að við borðuðum hádegismatinn á svölunum.
 




fimmtudagur, 11. september 2008

Undirbúningur í gangi

Ferðaáætlunin er klár eins langt og hún nær. 
Við fljúgum til Kaupmannahafnar 15. september og áfram til Moskvu 21. september. Þar dveljum við tvo daga og förum svo með lest frá Moskvu til Beijing í Kína um Ulan Bator í Mongólíu þriðjudagskvöldið 23. september. 
Áætlaður komutími í Beijing er mánudags eftirmiðdagur 29. september. Lengra nær áætlunin ekki, en helstu áfangastaðir eru þó ákveðnir.