laugardagur, 29. nóvember 2008

Haugasjór á Thailandsflóa


Sunnudagur 30.11.2008 - kl 03:00.
Jú þið lásuð rétt, það var haugasjór á Thailandsflóanum í dag. Við lögðum af stað frá bryggjunni hjá Big Buddha á norður hluta Samui eyjar um hálftvöleitið og við tók fimm tíma sigling um flóann með viðkomu á Kho Pha Ngan og Kho Tao og þaðan í land til Chumphon. 
Okkur var boðin sjóveikistafla þegar við komum um borð í frekar lítinn  bát sem tók um 80 farþega. Við þáðum töfluna og skoluðum henni strax niður. Farþegi fyrir aftan okkur var ekki viss um hvort hann þyrfti töflu - það færi eftir sjólaginu. Starfsmaðurinn sagði að við yrðum að reikna með talsverðri öldu. Við náðum í stóla miðsvæðis í bátnum og vorum heppin með það. Flestir farþeganna áttu skemmri ferð fyrir höndum en við. Flestir fóru af strax á Kho Pha Ngan eftir um klukkustundar siglingu því í kvöld er laugardagspartí á eyjunni og þau mjög vinsæl með bakpokafólks. Aðrir fóru af á Kho Tao til að læra eða stunda köfun. Þaðan var svo tveggja klukkustunda stím í land. Ölduhæðin var u.þ.b. 2-3 metrar og skall á bátnum svo lengst af sá eiginlega ekki út um glugga. Fólk ýmist lá á gólfi eða hékk grænt og grátt í sætum sínum með hvíta plastpoka með frönskum rennilás fyrir það sem út úr þeim gekk. Einhverjir stóðu bara á bakþilfari og héldu sér í borðstokkinn og létu dæluna ganga út yfir hann. 
Við vorum feginn landgöngunni - en mest feginn að hafa sloppið að mestu við sjóveikina.
En mikið asskoti er erfitt að pissa við svona aðstæður.
Frá Chumphon tók við tæplega fimm klukkustunda keyrsla í rútu til Hua Hin. 
Við erum nú komin inn á herbergið okkar - eða öllu heldur villuna - á Dehevan Dara Resort.
Hótelið er mjög flott og við hlökkum til að vakna í fyrramálið og skoða svæðið.

Talsverður sjór, skyggni ágætt




Laugardagur - 29.11.2008, kl 12:26
Svona mætti lýsa veðrinu hér á Samui eyju í Thalandi eins og það hefur verið undanfarna þrjá daga. Engin eða aðeins sýnishorn af sól, bara skýjað og vindur með tilheyrandi öldugangi. En hitinn er 27 gráður. Við vitum lítið af ástandinu í Bangkok, ástandið í Mumbai fær meiri athygli. 
Við reyndum einu sinni að berjast á sólbekkjunum hér á hótelinu og tókst að liggja í tvo tíma en vorum þá nokkuð vindbarin.
Toyota pallbíllinn hans Friðriks hefur komið að góðum notum. Við erum búin að keyra nánast til hvern akfæran spotta á eyjunni og þekkjum hana orðið vel. Þetta er falleg eyja og örugglega stórkostleg í sól og blíðu.
Vegir eru margir sundurrofnir hérna vegna rigninganna en það hefur ekki komið að sök.
Við fórum í gær á Bophut golfvöllinn. Hann er níu holu par 3 völlur, svolítill sveitarvöllur en skemmtilegur.  Borguðum 2 x 1.450 Thb í greenfee ásamt kylfumey og kylfupoka. Anna Sigga spilaði á 19 pkt en Jónsi á 14 pkt. Við vorum bara lukkuleg og skemmtum okkur vel. Sáum risakönguló við leit í röffinu og eiturgræna slöngu á leið yfir brú að 8. braut.
Mynd af slöngunni verður sett á netið á morgun ásamt fleiri myndum héðan af eyjunni.
Erum að bíða eftir bíl til að keyra okkur á ferjulægið. Förum til Hua Hin með bát og rútu í dag og verðum ekki komin fyrr en um miðnættið að staðartíma.

miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Við höfum ekki nennt að dansa og syngja í rigningunni


Miðvikudagur 26.11.2008 kl 12:30 staðartími á Samui.
Við erum enn inni á herbergi en stefnum á að koma okkur af stað rétt strax. Til að taka af allan vafa - við erum ekki í Bangkok - og því ekki í neinni hættu vegna mótmæla og óeirða við flugvöllinn en  vonum að sjálfsögðu að ástandið verði betra þegar við förum í gegn um Bangkok flugvöll að morgni 5. desember.
En hér hefur rignt svo mikið undanfarna drjá daga að það liggur við að við sjálf förum út að mótmæla rigningunni. Hér er bókstaflega allt á floti vegna rigninga og slotar líklega ekki fyrr en á morgun eða föstudag. Laugardagur skiptir ekki máli því þá förum við héðan hvort sem er.
Við höfum notið þess að hitta Friðrik hérna á Samui. Hann fór með okkur umhverfis eyjuna í gær og lánaði okkur bílinn sinn það sem eftir er dvalar hér á eyjunni. Við keyrðum svolítið í gær og ég upplifði í fyrsta sinn á æfinni að keyra i vinstri umferð - það var svolítið skrýtið en venst eins og allt. 
Förum af stað - með óhreinan þvott sem hægt er að láta vaska og strauja fyrir 30-50 Thb.
Og svo vonum við bara að sólin fari að sýna sig.
Einhverjir hafa kvartað yfir að geta ekki "commentað" bloggið okkar vegna skorts á notendanafni og lykilorði. Ekki þarf neitt notendanafn eða lykilorð - bara skrifa staðfestingarorðið og haka við nafnlaus - þá er hægt að "kommenta" - gjörið svo vel okkur þykir líka vænt um að fá athugasemdir.
JÓL/ASJ

mánudagur, 24. nóvember 2008

Regn í regnskógarbeltinu

Flugvallarbyggingin á Samui eyju

Við komum hingað til eyjarinnar Kho Samui í gærmorgun um 10 leitið. Flugvélin sem flutti okkur frá Phuket flugvelli var 60 manna skrúfuvél frá Bangkok Airways og tók flugið um klst.
Þegar við lentum var grenjandi rigning. 
Landgangi vélarinnar var skýlt með plastsegli og sömu sögu að segja um opin bíl sem sótti farþegana út í vél. Flugvöllurinn á Samui eyju er skemmtilega sveitó hitabeltisflugvöllur. Hann er opinn og það loftar um um salarkynnin en þennan dag var búið að draga niður öll segl og plsastdúka vegna rigningar. Við tókum leigubíl á hótelið okkar Baan Hin Sai Resort sem liggur mitt á milli Chaweng og Lamai strandanna. Þar er sömu sögu að segja - lobbýið var yfirbyggð verönd opin að öðru leiti og herbergin í húsum í brekku neðan við lobbýið og niður að ströndinni. 
Og það hélt áfram að rigna. 
Við lögðum okkur í tvo tíma - þá hafði stytt upp og við gengum um 50 mínútna leið inn að Chaweng (bænum) því það er ekkert við að vera á hótelinu okkar í grenjandi rigningu. Gestir eru fáir - kannski vegna regntímans en líklega helst vegna samdráttar í ferðamennsku út af heimskreppunni.  
Við borðuðum á strandveitingastað á hótelinu um kvöldið, en þá var orðið stjörnubjart og von um betra veður. En því var ekki að heilsa. Ég vaknaði upp við eldglæringar og þrumur um fimmleitið í morgun, síminn var dauður og komin úrhellisrigning.
Við héldum okkur heima til hádegis en fórum þá inn í Chaweng til að gera eitthvað. Settumst inn á Wave sem er frægur staður hér á eyjunni. Þar sátum við, borðuðum, drukkum, lásum og fórum á Internetið og dudduðum okkur í rigningunni, sem alltaf virtist aukast þegar við gáðum til veðurs.
Við uppstyttu fórum við aftur að stað en það dugði skammt. Aftur úrhelli og ég bauð Önnu Siggu á Starbucks til að flýja rigninguna. Þar dvöldum við svo í ca 3 klst og horfðum á rigninguna. Af tilviljun hittum við fimmta íslendinginn á för okkar um Asíu - og það sem er sérkennilegra við þekktum hann. Hann hefur aðsetur hér og bauð okkur í bíltúr á morgun að skoða eyjuna.
Þegar við komum heim á hótelið okkar í kvöld þurftum við bókstaflega að vaða elginn í brekkunni fyrir framan herbergið okkar og komust rennblaut inn úr rigningunni.

laugardagur, 22. nóvember 2008

Golf í nóvember

Við vildum endilega skrifa örlítið um golf. Það er nefnilega þannig að hér í Thailandi er hægt að spila golf í nóvember - þeas allt árið.  Og fyrst maður er hér á annað borð er nærliggjandi að panta sér rástíma. 
Við áttum pantaðan rástíma kl. 10:30 í morgun á Loch Palm vellinum sem er uþb 45 mín frá hótelinu okkar. 
Við náðum að slá um 40 æfingabolta áður en við byrjuðum og vorum aðeins þrjú í holli - við tvö og ein ameríkani. Með okkur fylgdu svo þrír caddíar, allt gullfallegar stúlkur sem sáu um að draga pokana okkar, velja kylfurnar okkar, segja okkur til um hvaða stefnu við ættum að taka og hve langt væri inn grín frá hverjum stað sem slegið var. Svo héldu þær á kódósinni meðan slegið var og gerðu smá grín að okkur þegar höggið lenti annarsstaðar en ætlað var. Þetta höfum aldrei prófað áður að hafa einka kylfusvein (kylfumey) í golfi en það verður að segjast að það er mjög þægilegt. Við höfum ekki komið á golfvöll frá því í byrjun september og vorum því dálítið óörugg, en þegar upp var staðið spilaði Anna Sigga á 24 punktum og Jónsi á 23 punktum sem er barasta allt í lagi fannst okkur.
Við höfum verið her á Phuket eyju í 5 daga og höldum áfram yfir á Samui eyju á morgun sunnudag. Strandlífið á ekki alveg við okkur og því var það góð tilbreyting að slá golfbolta í dag.  Vonandi eigum við eftir að fara aftur áður en við förum héðan - Thailenskir golfvellir eru bara flottir. Tókum eitthvað af myndum sem við reynum að setja inn á morgun.

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Litli Stokkhólmur - sænskar kjötbollur á Phuket


Litla Ítalía er í New York, Tromsö er stundum kölluð Feneyjar norðursins, Búkarest var um tíma kölluð litla París og Chinatown finnst í velflestum stórborgum heimsins.  Það má með sanni segja að hér á Kataströndinni á Phuket séum við komin til Litla Stokkhólms. Hér er annar hver ferðamaður sænskur, þjónarnir á mörgum veitingastöðunum slá um sig með sænskum frösum, klæðskerarnir flíka sænskukunnáttu sinni og ljósritaðar netútgáfur sænskra dagblaða eru seldar á 180-200 THB í verslunum. Hér er jafnvel boðið upp á sænskar pönnukökur og kjötbollur og sænska bari má finna hér. Hér ávarpa menn hver annan á sænsku en það eina sem vantar er Ikea. Þó getur vel verið að Ikea sé hér þótt við höfum ekki séð það, en við drukkum þó úr sænskum Ikeabollum á Bug & Bee í Bangkok. Já Phuket er sænsk sumarparadís og þótt Tsunami sem skall hér á eyjunni annan jóladag 2004 hafi markað djúp spor í sænska þjóðarsál þá halda þeir tryggð við svæðið.
Hingað erum við hjónakornin mætt og líkar bara vel. Við verðum á Phuket í sex daga og notuðum tækifærið í dag til að heimsækja Phi Phi eyjarnar þar sem kvikmyndin "The Beach" var fest á filmu (við höfum að vísu ekki séð hana). Þrátt fyrir sólarleysi og rigningu í lok ferðar tókst Jónsa að brenna svo hressilega að hann fer tæpast í mikla sól næstu daga. 
Tailand býr yfir mikilli fjölbreytni. Við áttum þrjá daga í Bangkok en vorum ekki sérlega hugfangin af þeirri borg (sjá ljósmyndabloggið okkar). Betur líkaði okkur heimsóknin til Kanchanaburi og Kwai þar sem  við fórum á fílsbak og klöppuðum tígrum og strandlífið á vonandi eftir að verða okkur skemmtilegt.

miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Rolla í fölsku skinni

Við höfum oft notið þess að heyra orðnotkun Bibbu systur minnar og stundum tölum við um Bibbisku. Við vorum með henni og Maddý systur (og köllunum þeirra líka) í Slóveníu í lok ágúst og það er með ólíkindum hvað veltur upp úr Bibbu á stundum. Þó ekki skrýtið eftir meira en 30 ára búsetu í Svíþjóð en hún má eiga það að hún er fljót að búa til orðasamband eða skýringu ef hana vantar rétta orðið - mér skilst að hún geri það líka á sænsku. 
Bibba situr á "sjónarbekknum" þegar hún fer á völlinn - ekki áhorfendastúkunni, hún tekur "kort" á myndvél, verður aldrei bílveik en getur orðið "ökusjúk" og finnst ákaflega rómantískt að horfa á "sólarniðurganginn". Svo eru það orðatiltækin.
" Æfing þrautir reynir margar" = Þolinmæði þrautir vinnur allar.
"Fyrr má nú aldeilis dauðrota en dauðþrota". 
Þetta skráðum við í Slóveníu og fannst fyndið - en hún á þó ekki heiðurinn af yfirskriftinni. Hana á Anna Sigga.
Eitthvað var hún að reyna nálgast úlfinn í sauðargærunni held ég en er þó ekki viss. Og þetta hefur ekkert með ferðalagið okkar að gera en mér fannst ég þurfa að losa aðeins um þessar hugsanir. 
Við eyddum síðasta kvöldinu okkar hér í Saigon eins og því fyrsta.  Við borðuðum góðan mat á La Dolce Vita Cafe á Continental hótelinu og fengum okkur ein G&T á 10. hæðinni á Caravelle hótelinu í miðborg Ho Chi Minh. Á næsta borði sat hæglátur maður - Amrikani held ég. 
Saigon býr yfir ákveðnum sjarma sem ég get ekki alveg skýrt út.
Og nú förum við með eftirmiðdagsvélinni til Bangkok í Thailandi - á vit nýrra ævintýra.

mánudagur, 10. nóvember 2008

Sæhestar í Mui Ne

Sandöldurnar í Mui Ne

Fiskimannaþorpið í Mui Ne

Það voru engir sæhestar á matseðlinum í Mui Ne, en hótelið okkar hét Seahorse Resort. 
Við erum sem sagt komin aftur til Ho Chi Minh/Saigon eftir 7 daga dvöl á sólarströnd. Okkur tókst á þriðja degi að fá herbergi með inniklósetti (og rennandi vatni) og viti menn eftir það fengum við engin mýbit. Allt varð gott og og við gátum aftur einbeitt okkur að megintilgangi dvalarinnar - að liggja í sólbaði og leti, lesa, leysa sudoku og hafa það huggulegt.
Hotelresortin á Mui Ne eru mörg mjög flott og okkar var það líka. Okkur finnst þau þó Mui Ne vera frekar fábrotinn staður sem enn er á frumstigi uppbyggingar í ferðamannaþjónustu og því frekar of hátt verðlagður m.v. gæði. Við uppgötvuðum á fyrsta degi að við vorum eiginlega kominn í rússneska ferðamannanýlendu. 95% gesta eru Rússar, 4% Þjóðverjar og 2 stk Íslendingar. Matseðlar voru allstaðar á rússnesku en verðin samt sem áður í US-dollurum.
Við fundum góðan sjávarréttamatsölustað, sem bar af. Hann var kannski svolítið kínki - svona Bavarískur, Tékkneskur matsölustaður með miðevrópskri túbutónlist og tékkneskum bjór sem þeir brugga sjálfir. Matinn er hinsvegar hægt að velja úr kerjum með rækjum, kolkrabba og öðru sjávarfangi. Og sjávarfangið svíkur ekki - við enduðum með að borða þar þrisvar sinnum og höfðum gott af. 
Það er ekki margt að skoða í nágrenni hótelsins. Við fórum þó hálfan dag og skoðuðum lítið fiskimannaþorp og sandöldur ásamt nýju golfsvæði sem er enn í uppbyggingu og verður þegar það er komið í notkun eftir ca 1 ár risastórt og flott svæði.
Í dag ákváðum við svo að keyra með leigubíl inn til Saigon í stað þess að taka rútuna. Við sáum ekki eftir því. Þó það hafi verið dýrara þá tók það mun skemmri tíma og í alla staði þægilegra. 
Við  sitjum nú á Hotel Mifuki kl. 8 að kveldi og leiðinni að fá okkur eitthvað í svanginn

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Á sigurdegi Baraks Obama Bin Laden

Það fór eins og flestir Evrópubúar vonuðust til - hægrimaðurinn Obama sigraði harðlínu hægri manninn Mc Cain. Megi það vita á gott - betri fréttir en óttast mátti.
Tímabundið heimili okkar á Seahore Resort
Ströndin "okkar"

Selurinn Snorri

Sjálf erum við sigurvegarar líka. Í dag náðum við í fyrsta sinn í ferðinni okkar að liggja nánast til óhreyfð á sólarbekk í allan dag. Og hví líkur sigur - bæði brunnin (og mýbitin) - lítum út eins og karfar. Maður lærir aldrei.  Byrjar fyrsta sólardaginn á sólarströnd alltaf á því að segja - muna að passa sig - bera á sig sólarvörnina og liggja bara þrjá tíma.  Græðgin vinnur alltaf - lágum (alla vega) fjóra og hálfan því það var soldið skýjað og við skaðbrunnin. Þetta gerðist líka síðast (og þar áður).

Við komum hingað á Seahorse Resort í Mui Ne í gær eftirmiddag eftir um 5 klst ferð í rútu frá Saigon. Það var falleg ferð en soldið of löng. Við fengum ágætis herbergi í Bungalow with a garden view. Það er gott eins og það nær. Fínt herbergi með svona úti/inni baðherbergi. Það þýðir að herbergið er úti en undir þaki og maður verður mýbitinn á rassinum við það eitt að setjast á skálina - Anna Sigga er alveg snarbrjáluð. Þetta væri allt í lagi ef maður hefði líka inni klósett en því er ekki til að dreifa. Við sofum undir mýflugnaneti en það hjálpar ekkert þegar maður þarf að pissa á þessu rómantíska útiklósetti um miðja nótt.
Hér fallegt og hér ætlum við að vera næstu fimm nætur og njóta sólar og hvíldar við lestur góðra bóka.

sunnudagur, 2. nóvember 2008

Caravelle Hótelið í Saigon

Við gengum um miðborg Saigon í dag. Hún er ekkert sérlega stór en ber ákaflega sterk einkenni þess að hafa verið áhrifasvæði Frakka. Húsbreiddir eru litlar við flestar göturnar og götumyndir geta verið ansi fjölbreyttar - sem er bara skemmtilegt og oft á tíðum aðlaðandi.
Þetta er svolítið eins og Reykjavík - misleit borgarmynd en fyrir vikið mjög fjölbreytt og skemmtileg.
Við fórum inn á sýningu sem sýndi niðurstöður hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag Saigon. Það er náttúrulega ógjörningur að setja sig inn í meginviðfangsefni slíkrar samkeppni á stuttum tíma en að sama skapi ákaflega sorglegt að sjá alþjóðlega strauma í skipulagi setja spor sín hér eins og annars staðar. Ef fer sem horfir mun Saigon breytast úr 2-3 og 4-6 hæða fjölbreyttri og vel þéttbyggðri borg í háhýsahrylling sem á undaförnum árum hefur verið svarið við borgarþróun um allan heim. Ég sé ekki gæði lausnarinnar og sé ekki hvernig þessi svörun við spurningunni geti leitt af sé borg sem er meira aðlaðandi en sú sem nú er. Annað hvort er spurningin röng eða öll svörin. Mér finnst eins og arkitektar heimsins verði að fara að taka sér tak og endurskoða afstöðu sína til borgarinnar og skipulags hennar. 

Ég ólst upp við daglegar fréttir frá Víetnamstríðinu og framan af við frásagnir af hetjudáðum Bandaríkjamanna í Víetnam. Víetnam og sérstaklega Saigon sem var "okkar" megin bjó yfir einhverri dulúð sem vakti snemma drauminn um "þangað langar mig að koma". Og hingað erum við komin. Áttuðum okkur ekki á því fyrr en eftir á að fyrsta kvöldið okkar borðuðum við á leiksviði "Hægláta Ameríkumannsins" á sjálfu Continental hótelinu í Sagion. Í kvöld heimsóttum við svo Caravellehótelið sem líka varð frægt í Víetnamstríðinu. Þar sátu erlendir fréttamenn á þaki hótelsins og skrifuðu fréttir úr stríðinu og sérstaklega er hótelið þekkt vegna hörmulegrar sprengingar sem varð þar og varð um 100 manns að fjörtjóni í águstlok 1964. Í kvöld fórum við á barinn á 9 hæðinni og þaki hótelsins. Þar drukkum við gin í tónic, hlustuðum á Salsatónlist ásamt öllum hinum ferðamönnunum sem gista Saigon þessa dagana og horfðum út yfir borgina.
Ég er held ég soldið skotinn í Saigon.

laugardagur, 1. nóvember 2008

Hægláti Ameríkumaðurinn

Það fer ekki á milli mála þegar gengið er um götur Saigon að bók Graham Green "The Quiet American" gerist hér.  Bókin er til sölu hjá öllum götubókasölum í ýmsum útgáfum og ég lét plata inn á mig einni fyrir 4 dollara (80.000 VND). Hún reyndist ljósrituð útgáfa á lélegum pappír en lesanleg. 
Við skoðuðum örlitið af borginni hér nálægt hótelinu í kvöld - aðallega til að fá eitthvað að borða.
Við fundum ítalskan stað "Ristorante Venezia" sem sýndi sig að vera hluti af Continetalhótelinu, ekki ódýrasti staðurinn í Saigon.
Við pöntuðum okkur bruscettu í forrétt og steik í aðalrétt, ís og kaffi á eftir og það sem mikilvægast er - við fengum rauðvín með matnum í fyrsta sinn frá því á siglingunni okkar um Yangtzefljótið. Á Yangtze kostaði ódýrt innflutt rauðvín ca 250 Rmb eða um 4.500 ísk. Hér gátum fengið ágætt ítalskt vín fyrir 250.000 VND eða um 1.750 ísk.
Það var æðislegt að panta nautasteik eftir meira en 6 vikna ferðalag um Rússland, Mongólíu og Kína. Við mundum allt í einu eftir því að við höfum bara ekki borðað steik frá því við fórum af stað frá Köben þan 21. sept. Þetta var því æðislegt og að fá brauð og smér á undan - nú þurfum við bara ostinn. Maturinn í kvöld var kannski ekki ódýrasti maturinn sem við höfum fengið.
Hann kostaði 870.000 VND sem jafngildir 6.000 ísk en vel þess virði og gott að fá eitthvað annað en Kínamat, KFC eða Pizza Hut.
Ekki það að kínverska eldhúsið sé vont - alls ekki. Kínverskur matur er oftast mjög góður - sérstaklega er ég hrifinn af gufusoðna eða léttsteikta grænmetinu þeirra - gæti næstum því lifað af því. Það er bara svo erfitt að fá ekkert annað hvort sem um er ræða morgun- hádegis- eða kvöldmat. Að borða fyllta dumplings og núðlurétti í morgunmat er bara ekki allveg okkar stíll.
Svo getur stundum verið hálf ógeðfellt að horfa á Kínverja borða. Um daginn stoppaði t.d bílstjórinn okkar við vegarkant og keypti núðlurétt í frauðplasti og súpu sem hent var inn um gluggan (beint fyrir framan mig) og súpan var í hálfglærum plastpoka. Ég horfði svo á hann borða núðlurnar sínar og hella svo súpunni í frauðplastformið og drekka hana - því engin var skeiðin og erfitt að borða súpu með prjónum.
Það er líka svolítið skemmtilegt að horfa á Kinverja borða með hníf og gaffli - já já þetta eru kannski fordómar en við höfum nú líka verið Kínverjum aðhlátursefni þegar við reynum árangurslítið að borða með prjónum. Kínverjar halda nefnilega á gafflinum með aðalhendinni (hægri?) og þegar þeir reyna að skera með hnífnum þá hafa þeir hann í vinstri og gengur því frekar illa að vinna á því sem skera skal.

Saigon kemur okkur þægilega á óvart. Við búum allveg í hjarta borgarinnar og kvöldlífið er skemmtilegt.  Saigon er miklu lágreistari en þær borgir sem við höfum ferðast um undanfarið. Hér eru varla háhýsi. Húsin í borginni 4-6 hæðir og borgin virkar aðlaðandi.
 

Ho Chi Minh City - Saigon í Vietnam

Við erum þá búin að kveðja Kína. Okkur sýndist á vegabréfsárituninni að ekki hefði má tæpara standa. Við komum inn í Kína að kveldi 28. september og við fórum þaðan 1. nóvember. Ég er ekki skarpur í stærðfræði en mér sýnist þetta 35 dagar - nákvæmlega það sem við lengst máttum vera og ekki máttum við koma hingað til Víetnam fyrr en 1. nóvember.
Við óttuðumst svolítið að koma hingað til Saigon. Í fréttum hefur verið greint frá miklum rigningum, sem reyndust þó mestar í Hanoi og veðurfréttir segja hér vera rigningu með þrumum og eldingum. En svo var ekki - þegar við lentum um fimmleitið var bjart og léttskýjað og ekkert mistur eins svo algengt var að sjá í Kína. Það er að vísu heitt - svona 28 stig.
Við búum á Spring hotel og það tók okkur um 50 mínútur að komast hingað frá flugvellinum, ekki af því að það er svo langt út á flugvöll - nei - það er bar mikil umferð hér í Saigon - vegalengdin er bara um 12-15 km.
Í lagi Stuðmanna segir  "Ég hef aldrei áður séð aðra eins gommu af reiðhjólum" - þetta varð þeim að orði þegar þeir sáu öll reiðhjólin í Köben.  
Í Kína og þá sérstaklega í Beijing í þjóðhatíðarvikunni varð okkur oft að orði "Ég hef aldrei áður séð aðra eins gommu af fólki" og það er satt fjöldinn var yfirþyrmandi.
En nú erum við í Saigon og vitið hvað "Við höfum aldrei séð aðra eins gommu af vélhjólum".
Kínverjar skiptu úr reiðhjólinu beint í bíla, en hér virðist fátæktin meir því hér eru það skellinöðrur, vespur og ýmis vélhjólaafbrigði sem dóminera borgarmyndina.
Kannski maður ætti að opna vélhjólaverslun hér í Saigon.
Saigon er vinalegri borg en flestar borgir sem við höfum heimsótt í Kína - en nú ætlum við að kynna okkur það betur.