föstudagur, 31. október 2008

Síðasti dagur í Kína-081031





Á siglingu á Perlufljóti

Matarmarkaðshverfið


Dæmigerð bygging á Shaiman eyju

Já nú er komið að því að kveðja Kína. Á morgun eigum við pantað flug til Ho Chi Minh í Víetnam. Við höfum eiginlega verið að bíða eftir þessu en áttum ekki ferðaheimild inn í Vietnam fyrr en 1. nóvember.
Við röltum um miðborg Guangzhou í gær en höfum tekið því rólega í morgun, pakkað niður bókum og fötum sem við ætlum að senda heim - sennilega eitthvað um 7-8 kg.
Það litla sem við höfum sé að Guangzhou hefur ekki heillað okkur neitt sérstaklega en afar skemmtilegt og fróðleg var þó að heimsækja Shaimaneyjuna þar sem hvítir menn máttu og áttu að búa á í gömlu Canton. Eyjan er að skilin að frá meginlandinu með síkí en snýr til suðurs út að Perlufljóti. Þar er eins og koma inn í einhverskonar trópíska evrópu síðustu aldarmóta (1900), öll hús bera einkenni evrópsk og amrísks arkitektúrs þess tíma. 
Við gggnum í gegn um markaðssvæði beint norður af eyjunni, sáum alls slags varning sem við kunnum lítil sem engin skil á og hefðum ekki treyst okkur til að borða - þannig getur maður sjálfsagt soltið í húsi fullu matar. 
Við búum á ágætis hóteli - Riverside hotel - niðri við Perlufljót austur af miðborginni. Við tókum bát niður á Shaimaneyju og borguðum 1 Yuan (17 íkr) pr mann fyrir ferðina. 
Það er ótrúlegur munur á hvað hlutir kosta hér í Kína. Við borðuðum á hótelinu í fyrrakvöld og drukkum þrjá litla bjóra með. Það kostaði 365 RMB sem er mjög dýrt. Í gærkveli borðuðum við ágætis mat handan götunnar á veitingastað og drukkum tvo stóra bjóra með matnum. Þar borguðum við aðeins 85 RMB (ca 1500 ÍKR). Við fórum svo á barinn á hótelinu og drukkum tvo einfalda Gin í tonic og borguðum 140 RMB (ca 2.400 ÍKR). Þetta eru miklar andstæður.
Útsýnið héðan af 19. hæðinni er fínt - við sjá vel yfir fljótið og getum fylgst með upplýstum bátunum sigla hér um á kvöldin.

miðvikudagur, 29. október 2008

Guanzhou - Canton


"Toys - The real  thing" myndaverk á sýningunni á MOCA

Kvöldljós á Nanjing Lu Dong

Við kvöddum Shanghai í morgun. Það tók um klukkustund að komast út á Hongqiao flugvöll.
Það var ekki með neinum sérstökum söknuði að við kvöddum Shanghai. Í gær fórum við með öndergrándinum niður Hua Hai Zhong Lu og gengum það upp í garðana "Peoples park" og Renmin garðinn sem liggur að Nanjing Lu þar sem hún hættir að vera göngugata. 
Garðarnir í Shanghai eru fallegir eins og við höfum reyndar séð í fleiri borgum. Bolli sagði okkur að Kínverjar væru snillingar í að gera garða. Hann sagði okkur frá svæði sem hafði verið girt af og öll húsin innan girðingar rifnar. Að því loknu var svo gerður garður og allt fullfrágengið á innan við sex mánuðum.  Þetta leika ekki margir eftir þegar haft er í huga að tré og gróður líta ekki út fyrir að vera nýplöntur - nei þetta er 10-15 m há tré í fullum blóma, fullvaxta klipptur runnagróður, tjarnir og allt tilheyrandi. Við heimsóttum lítið nútímalistasafn fyrir aftan óperuna sem heitir MOCA - fínt lítið safn og fín sýning. Við gengum svo austur Nanjing Lu inn í kvöldið og upplifðum þessa miklu verslunargöngugötu klæðast kvöldbúningum og allt lýstist upp. Við borðuðum kínverskan mat upp á fimmtu hæð veitingastaðar við Nanjing Lu - fengum ágætan mat á góðu verði (innan við 100 Rmb). Að því loknu gengum við heim á hótel, sóttum flugmiðana okkar til Guangzhou, upp á herbergi og pökkuðum. 
Dagurinn í dag var ferðadagur. Við vorum komin á völlinn um 10 leitið og áttum flug um 12 leitið. Síðan tók við rúmlega tveggja tíma flug og svo klst í flugvallarrútu inn á hótelið sem við höfðum pantað. Það hótel (JIN Zhou International buisness hotel) reyndist ömurlegt þrátt fyrir sínar 4* svo við skiluðum herberginu aftur og tókum taxa niður á Riverside Hotel við JanJiang Zhong Lu. Það hótel var miklu betra og reyndar örlítið ódýrara. Okkur líður vel á herberginu okkar á 19. hæð sem snýr út að Perluá og verðum hér í þrjár nætur þangað til við flúgum til Saigon í Vietnam.

mánudagur, 27. október 2008

Tongli og Shanghai


Við erum nú búin að vera hér í Shanghai í þrjár nætur og verðum aðrar tvær. Við eigum bókað flug til Guanzhou (Canton) þann 29. október og þaðan förum við líklega til Víetnam - þó ekki endanlega ákveðið. Anna Sigga sofnaði snemma og ég notaði því tækifærið og setti inn myndir frá Shanghai og síkjabænum Tongli sem við heimsóttum í dag. Það var notalegt að koma til Tongli úr ys og þys stórborgarinnar. Skoðið endilega myndirnar og gefið comment ef þið nennið - ég er loksins búinn að stilla comment-möguleikann rétt.
Við finnum það núna að við erum orðin dálítið þreytt eftir 6 vikna ferðalag og ógleymanlega upplifun, Kínverjarnir fara dálítið í taugarnar á okkur núna. Við finnum meira og meira fyrir okkar eigin fötlun sem felst í því að geta hvorki skilið né talað tungumál Kínverja - né lesið texta. Við ýmist geltum eða hreitum fúkyrðum í Rólexsölumennina - við borðum oftar Pizzu eða KFC, hryllum okkur við hrákahljóðin og langar mest að hella okkur yfir þessa hrákakalla. En því verður ekki neitað að KÍNA er stórkostlegt land.

laugardagur, 25. október 2008

Ferðamannafælur í Shanghai

Við komum til Shanghai síðla dags í gær eftir tveggja og hálfs tíma flug frá Guilin. Það tók okkur tæpa tvo tíma að komast á flugvöllinn frá hótelinu okkar í Yangshuo. Hitinn var aðeins 14 stig og það rigndi hressilega þegar við lögðum af stað frá Yangshuo og enn meira þegar við komum á flugvöllinn. Í Shanghai var hinsvega þurrt og yfir 20 stiga hiti. 
Við komum á hótelið okkar - The Bund Riverside" á Bejing Lu East um hálfsexleitið. Okkur var að sjálfsögðu boðinn bíll á flugvellinum á 200 RMB en enduðum með að borga 60 RMB í bíl sem ekið var skv. mæli.
Hótelið var ágætt en okkur finnst hótelin sem við höfum verið á hér í Kína ekki vera sérlega hreinleg þrátt fyriri að þau séu 4* hótel. Við fórum í gærkveldi niður á Nanjing Lu sem er "göngugatan" hér í Shanghai. Þar  var svo mikil ljósadýrð að það minnti á Times Square í New York. 
Vi erum orðin svolítið dösuð eftir tæplega sex vikna ferðalag og sama á við um kínverska matinn - það erfitt fyrir íslenskar brauð- og ostætur að fá ekki ost og alls ekki alltaf gott brauð.
Okkur finnst allt í lagi að borða kínverkst á kvöldin og í hádeginu en það er of mikið að borða kínverskt í morgunmatinn líka.
Annað sem líka er farið að fara óhemjulega í taugarnar á okkur eru "ferðamannafælurnar" sem reyna að pranga inn á manni úrum, bolum, leikföngum, töskum - já næstum hverju sem er. Þetta fólk er alls staðar og maður gengur varla 10 metra án þess að verða ávarpaður af einni fælunni. Ég er orðinn svo forhertur að ég dæsi og lygni aftur augunum og hristi höfuðið og svara jafnvel ruddalega  til þess að koma þessum andskotum í burtu en það hefur ekkert að segja.  
Við erum að fara yfir ferðaáætlunina okkar og hugsanlega endurskoða hana. Við erum hætt við að fara til Japan að sinni og það kann að enda með því að við förum beint héðan til Thailands án viðkomu í Vietnam.
Það hvorki bætir né léttir að lesa fréttir af efnahagsástandinu heima og spár um hugsanlega frekari lækkun íslensku krónunnar eru ekki uppörvandi. Okkur hefur þó ekki enn verið neitað um viðskipti með kortin okkar en upplýsingar um gengi eru mjög misvísandi og ekki hægt að kaupa gjaldeyri eins og ástandið er.
Við vonum þó það besta.

föstudagur, 24. október 2008

Viðkoma og V-merki

Kínverjar taka mikið af ljósmyndum eins og flestar aðra þjóðir. 
En það eru bara svo margir Kínverjar að þeir taka fleiri myndir en allir Evrópubúar, Amríkanar og Rússar samanlagt - af þeirri einni ástæðu að þeir eru fleiri.
Svo er einkennandi fyrir Kínverja að þeir taka myndir af öllu - ekkert er svo ómerkilegt að það verðskuldi ekki að vera ljósmyndað. Í Forboðnu borginni í Beijing sáum við t.a.m. Kínverja sem tóku myndir af ruslatunnum og stilltu sér upp fyrir framan þær. Blómabeð, inngangar að verslunum, uppstilling á sígarettum, matseðlar og styttur f. framan hús eru vinsælt myndaefni en nauðsynlegt að einhver sem ljósmyndarinn þekkir sé með á myndinni. Og sá sem situr fyrir sem myndefni gerir jafnan tvennt sem er algerlega ómissandi á mynd - hann snertir bómabeðið, ruslatunnuna, sígarettukartonið, styttuna eða matseðilinn með annarri hendinni, hallar dálítið undir flatt, brosir leyndardómsfullu brosi og krossleggur gjarna fæturna OG SVO GERIR HANN V-MERKIÐ með hinni hendinni.
Anna Sigga prófaði að gera eins og Kínararnir en gleymdi fótunum svo ég skar þá frá á myndinni og svo hefði hún líka mátt halla ofurlítið undir flatt.

fimmtudagur, 23. október 2008

Impression Liu Sanjie

Við fórum á ljósasjóið sem við minntumst á áðan. Þetta reyndist vera hin besta skemmtun.
Við höfðum ekki kynnt okkur sérstaklega hvað við værum að fara að sjá en sýningin var miklu tilkomumeiri en við höfðum vænst. 
Leikstjórinn er Zhang Yimong, sá sami og stjórnaði upphafsathöfninni á ólympíuleikunum í Beijing. Sviðið er náttúrlegt - sjálft Li fljótið og tindarnir sem eru svo einkennandi fyrir þetta svæði í Kína.
Það geta væntanlega fáir aðrir en Kínverjar gert svona sýningu. Fjöldi leikara og söngvara er yfir 600 manns og sýningin  sýnd í þessu útileikhúsi tvisvar sinnum á hverju kvöldi. Við sátum í ódýrari sætunum og borguðum 188 Rmb fyrir aðganginn en áhorfendasvæðið tekur eitthvað á þriðjaþúsund áhorfendur. Við mælum eindregið með þessari sýningu fyrir þá sem eiga leið um Yangshuo.
Meðfylgjandi myndir er fengnar af láni á netinu.














Frekari upplýsingar um sýninguna má sjá  á:  http://www.travelchinaguide.com/attraction/guangxi/yangshuo/impression-sanjieliu.htm

Rigningardagurinn

Eitthvað urðum við að gera okkur til dundurs þennan mikla rigningardag og fyrir utan nuddið þá brugðum við okkur inn í kínverskt vöruhús. Þar var allt milli himins og jarðar til fyrir lítinn pening. T.d rafmagnshella fyrir teketil og suðupott í einu tæki, skartgripir, furðulegir ávextir og sætindi og einhvers konar fiskur  í snakkpokum.  Þegar við vorum búin að skoða okkur um á neðri hæðinni rákum við augun í þetta skilti sem vísaði á efri hæðina á frábærri kín-ensku. Við þrömmuðum auðvitað upp og litum dýrðina eigin augum. KK (kínverska kaupfélagið) á allt af öllu en mætti kannski fá sér betri kín-ensku auglýsendur.
Við erum annars á leið á ljósasýningu hér í bænum sem okkur er sagt að sé bæði flott og skemmtilegt.

Thai Massage í Yangshuo

Ég hef eiginlega aldrei farið í nudd frá því ég hætti að synda á átjanda árinu. Ég prófaði að vísu baknudd í vor þegar við vorum í golfferð á Spáni, en fannst það óttalega lítilfjörlegt.
Við vöknuðum upp síðla nætur við þrumur og eldingar hér í Yangshuo og dag hefur rignt nær látlaust. Því var lítið um að vera og við hættum aftur við bambusbátasiglingu og reiðhjólaferð og Anna Sigga hálfpirruð á öllu þessu kíneríi, langaði bara í almennilegt rúnnstykki með osti og gott kaffi. En hér í Yangshuo - "dream on" - bara kínamatur í morgun-, hádegis- og kvöldmat.
Til að gera eitthvað skemmtilegt ákváðum við að fara saman í nudd - ekki þorði ég að senda Önnu Siggu aftur eina eftir æfintýrið í Guilin.
Niðri á Vesturgötu hér í Yangshuo er  þessi líka frábæra nuddstofa og hægt að velja úr 20 mismunandi tegundum nudds.

Við völdum Thælenskt 90 mínútna nudd.

Vistarverurnar voru kannski ekki þær hreinlegustu en verðið var viðunandi jafnvel á nýja genginu. Við vorum leidd inn í vistarverur og tvæ örsmáar kínverskar stúlkur byrjuðu óðara að berja á okkur. Mig undraði að ekki var ætlast til þess að við færum úr neinum fötum - við vorum bara nudduð í fötunum og hélt að það væri bara ekki hægt. En því var öðru nær. Þessar örgrönnu og smáu stúlkur hófust handa við að nudda nánast til hvern blett líkamans frá iljum til höfuðs. Þær boruðu fingrum og tám í mig á viðkvæma staði (og þá á ég ekki við við þennan eina viðkvæma) þannig að maður hálfemjaði. Þær toguðu og teygðu og nudduðu meira að segja fingurgómana. Þegar útlimanuddinu var lokið hófst fóddanudd á bakið. Nuddstúlkan steig upp á bakið á mér og gekk þar um á heimavelli - eða eiginlega dansaði upp á tá og niður á hæl og böðlaðist á bakinu á mér á jörkunum. Mér fannst þetta eiginlega bæði stórfyndið og um leið dulítið vont, en líður nú öllu betur eftir 90 mínútna meðferð.

miðvikudagur, 22. október 2008

Kínverskt rauðvín

Við höfum verið í rauðvínsbindindi.
Allt erlent rauðvín er dýrt í Kína, svo við höfum forðast þennan erlenda fjanda. Að vísu dottið svona tvisvar, þrisvar en það er nú ekki mikið á þremur vikum.
Í dag var kominn tími til að detta aftur - en við fundum ekkert erlent rauðvín.
Við ákváðum að reyna okkur við Kínverks rauðvín sem við höfum þó verið vöruð við hvað eftir annað. Við duttum niður á 1995 árganginn af Cabernet Frank Great Wall - og vitið hvað vínið er bara ódrekkandi. Við vitum ekki hvað það hefur verið að gera í 15 ár - þetta er og verður ódrekkandi fjandi. Svo okkar ráð er - EKKI DREKKA KÍNVERSK RAUÐVÍN.
Gamla heimabruggaða rauðvínaið okkar var skömminni skárra.


Endur og tekningar


Við erum en í Yangshuo og áttum góðan en langan dag í dag. Við fórum eldsnemma í morgun (7:15) af stað með minibus til LongJi og skoðuðum hrísgrjónaakra og ættbálkaþorp. Þetta var mjög skemmtilegt, 700 ára uppbygging hrísgrjónaakra í hlíðum fjalla var ótrúlega fallegt að sjá og ættbálkaþorpin bara nokkuð skemmtileg innan þeirra marka sem slík þorp eru. Því þau eru bara túristaleikur. Þarna í hlíðunum búa nokkrir ættbálkar, hver með sín sérkenni, sem kínversk yfirvöld reyna að varðveita. Við túrhestarnir fáum svo einhverskonar grísaveislustemmningu út úr öllu saman og skoðum kellingar í þjóðbúningum selja einhverskonar túristaglingur.
Það versta við svona ferðir eru endurnar og  einkannlega endurtekningarnar. "Enskumælandi" Kínverskir leiðsögumenn virðast allir fara í einhverskonar skóla þar sem þeir læra eitthvert afbrigði af "ensku" - gæti trúað að það væri "kín-enska". Þeir eru flestir illa talandi og - það sem verra er - þeir hafa lært að endurtaka allt sem þeir segja a.m.k. tvisvar. þetta er auðvitað óþolandi og fyrir vikið missir maður áhugann á því sem þeir eru að segja eftir augnablik. Síðan reyna þeir að ná aftur athygli með því að spyrja okkur túrhestana hvað við höldum um hitt og þetta og þá fær maður allveg bólur. ímyndið ykku einn leiðsögumann spyrja svona ca 12-15  hesta um hitt og þetta (og þeir fara allan hringinn).
Svona gæti stutt lýsing kínensks leiðsögumanns hljómað.
"Ví ar ná koming tú - komíng tú - a træbal villigs - a træbal villigs. Ðe villigs - ðe villigs is verí bjúífúl- verí bjútifúl - and ví vil gó - ví vil gó - trú ðe villigs - trú ðe villigs- and mít - and mít -ðe lókal pípol - ðe lókal pípol................."
Þarna var mín athygli gersamlega horfin og ég farinn að geyspa.
Annars rigndi í dag en það var ókei því hitinn er yfir 25 gráður. 
Við reynum að setja einhverjar myndir inn á ljósmyndasvæðið á eftir.
Ef þið viljið beinan tengil þá prófið þetta: http://web.me.com/jonsi2/Site/Ljósmyndir_Photos/Ljósmyndir_Photos.html

JÓL/ASJ

þriðjudagur, 21. október 2008

Mýs, hundar og menn í Yangshuo

Anna Sigga var ný búin að sporðrenna síðustu djúpsteiktu smárækjunni er henni var litið inn á gólfið á veitingastaðnum. Og hún varð grá í framan. Á gólfinu var pínulítil mús - eiginlega hálfgerð rækja - sem hljóp um gólfið. Allt í einu vara matralystin og löngunin til að sitja áfram á þessum annars ágæta veitinga stað með öllu horfin. Borguðum reikninginn - 78 Rmb - og flýttum okkur burtu.
Og það er haft fyrir satt hér í Kína að hundar séu gjarna á matseðlinum - eins og reyndar flest sem gengið hefur, synt eða flogið hér á jörð. Kínverji hittir annan Kínverja með hund og segir "en hvað þetta er fallegur hundur". Hinn svarar "já og svo er hann líka ætur".
Hvar sem maður gengur um á götum hér í Yangshuo eru sölumenn sem reyna að selja allt sem hægt er að hugsa sér og við erum t.d orðin dulítið þreytt á að heyra "Jinglebells" og "meistari Jakob" spilað á alskyns hljóðfæri og í flestum tilfellum falskt.
Eitt af því fyndna sem þeir segja er "Hallo-Búdda" í belg og biðu í tilraun sinni til að selja manni litlar búddastyttur, eða "MAYBELATER"  í þeirri von að maður komi aftur og láti glepjast.
En hvað sem öðru líður þá er mjög fallegt í þessum pínulitla litla bæ sem Yangshuo er. Hér býr óvenjufátt fólk - aðeins 60.000 manns. Bærinn er byggður inn í og umhverfis allt að 100 metra háa steindranga sem umlykja allan bæinn og fær fyrir vikið mjög sérstakt yfirbragð. Ætli þetta sé bara ekki Hafnarfjörður þeirra Kínverjanna - "Bærinn í hrauninu".

sunnudagur, 19. október 2008

Bílar, Bátar og Brúðhjón í Guilin

Fáar borgir hafa að öllum líkindum fallegri bæjarstæði en Guilin. Þangað komum við seint í gærkveldi eftir langa og erfiða ferð í lest í meira en 13 klst.
Vöknuðum í morgun og sáum bara fegurð þegar við litum út um gluggan á herberginu okkar.
Skoðuðum borgina í dag í fylgd kínverskrar leiðsögustúlku. Hún talaði nokkra ensku en það er svolítið gaman að heyra Kínverja tala ensku. Hún notaði "allmost" og "maybe" mikið og oft erfitt að átta sig á samhenginu. "your hotel is allmost three star - maybe". Að segja þetta við þreyttan og pirraðan ferðalang er ávísun á leiðindi og þau urðu í gærkveldi. Við fengum að vísu betra hótel eftir að ég hafði æst mig upp. Og þá sagði hún það vera "almost" og "maybe" four star. 
Við föttuðum fyrst seint í eftirmiddag að "allmost" átti að oftast að vera "allways" eða "at least", svo að næstum því 4 stjörnu hótel - var í raun a.m.k 4 stjörnu hótel. 
Ég bauð Önnu Siggu upp á heilnudd á hótelinu í kvöld. Enn einn miskilningurinn. Ég sendi Önnu niður en þá birtist allt í einu nuddkona uppi á herbergi hjá mér og fór eitthvað að nudda í mér. Mér tókst að senda hana í burtu. 
Anna Sigga endaði hinsvegar niðri kjallara í herbergi með hjónarúmi þar sem nudd (að vísu) kona barði á henni - en Anna Sigga var viss um það þegar hún kom upp aftur að þetta var ekki staður fyrir kvennanudd. Hún var eini kvenkúnninn og heyrði undarlegan karlahlátur í næstu herbergjum á meðan nuddinu stóð.  Engar myndir eru til af þessu en skoðið ljósmyndasíðuna okkar - þar eru nýjar myndir frá Guilin.

föstudagur, 17. október 2008

Spitting Image of China


Þar sem við sitjum hér síðla kvölds á hóteli í Wuhan í Kína langaði okkur aðeins að losa okkur við hrákahryllinginn. Okkur er sagt að Kínverjum hafi verið kenndir ýmsir "mannasiðir" í tilefni Olympíuleikanna. T.d. að stilla sér upp í röð, kúka á vestrænum klósettum og gleypa eigin hráka.
Þetta hefur tekist bærilega. Kínverjar í Peking voru nokkuð góðir í að standa í röð. Við sáum þá ekki á klósettinu, en við heyrðum og heyrum þá daglega rsækja sig með miklum tilþrifum, hvort sem er á götum úti í rútum eða leigubílum.  Og á eftir fylgir líka þessi grængula slumma og áður en maður veit af er hægri skórinn komin á kaf í þenna viðbjóð. Sennilega höfum við bara verið heppin að fá ekki á okkur hráka. Okkur finnst þetta eiginlega verra en helvítis hundaskíturinn forðum daga í Köben. 
Það er svo skrýtið með þessa þjóð að hú er í senn með eindæmum þrifaleg og svo andartaki seinna subbusóðar. Í rútunni í dag hræktu nokkrir farþegar út sér hýði utan af fræjum, hentu appelsínuberki á gólfið og tómum plastpokum út um gluggan. Á næsta andartaki sáum við konu með viskinn sópa hraðbrautina úti í miðri sveit.
Hana nú og hafið þið það.

sunnudagur, 12. október 2008

Xian - Leirherinn, silkiverksmiðja og fleira

Við fórum að skoða Leirherinn, sem er safn ca. 25 km austur af Xian og borguðum 500 Rmb fyrir bíl, bílstjóra og aðgang að safninu. 

Bílstjórinn var mikill sölumaður og sjálfsagt á prósentum hjá ýmsum aðilum, því hann byrjaði á að fara með okkur á verkstæði sem býr til eftirmyndir af leirhernum, húsgögn ofl. Þar gátum við leirstyttu í fullri líkamsstærð og "það kostaði lítið sem ekkert að senda heim til Bingdao (íslands). Við keyptum pínulitla afsteypu fyrir kurteisissakir en sáum eiginlega strax eftir því, því nú þurfum við að burðast með lítinn kall með okkur um Asíu.

En þetta var ekki allt. Næsta stopp var í silkiverksmiðju þar sem við vorum leidd í allan sannleika um hverning silkið verður til, sáum hvernir spunninn er þráður og hvernig búnar eru til silkisængur. ÚPPS.

Þar fundu þeir veikan blett. Áður en við vissum af vorum við búin að kaupa tvær silkisængur sem hvor um sig vegur 1 kíló - ekki var boðið upp á heimsendingu. Svo nú erum við komin með tvær silkisængur og ein leirkall að burðast með.

Eftir stutt hádegishlé komumst við loksins á safnið sem var tilgangur ferðarinnar. Við kláruðum það á ca 3 klst. og börðumst eins og heyrnarsljó og sjónlaust fólk til baka til þess að kaupa ekki allslags drasl á leiðinni til baka - og okkur tókst 

Næstum því.

Á leiðinni heim á hótel spurði okkar ágæti vinur bílstjórinn Jack (skrítið nafn í Kína) hver för okkar væri heitið frá Xian. Við svöruðum því. Hann spyr hvort við séum búin að kaupa miða - Og ÚPPPPS - Við keyptum af honum tvo flugmiða til ChongQing á þriðjudag - og bíðið við - Þar tekur á móti okkur John - vinur Jack´s sem ætlar að selja okkur miða í siglingu niður Yangtze fljótið.

Kannski erum við auðveld bráð - kannski - Við vitum þó að það verð sem við borguðum fyrir flugmiðana var sama og /eða ódýrara en það ódýrast sem við fundum á netinu upplýsingar þeirra um verð í siglunguna er mun hagstæðara en verð sem við höfum séð á netinu fyrir sömu báta. 


Myndirnar af Leirhernum eru komanr á ljósmyndasvæðið okkar og smá blogg þar með.

laugardagur, 11. október 2008

Komin til Xian í mið-Kína

Við komum hingað til Xian með næturlestinni í morgunn. Megintilgangurinn er að heimsækja Leirherinn sem er hér fyrir utan borgina og það ætlum við að gera á morgun.
Í dag heimsóttum við Múslimahverfið sem er hér rétt hjá hótelinu, fórum í stóru Moskuna og virtum fyrir okkur mannlífið.
Hér er mikil mengun og sá ekki til sólar í dag.
Við höfum sett inn fleiri myndir á ljósmyndsíðuna og hvetjum ykkur endilega til að skoða.
Nýjasta safnið er hérðan frá Xian og nýja Óperuhúsið í Beijing

fimmtudagur, 9. október 2008

Síðasta kvöldmáltíðin í Peking

Þetta er ekkert kristilegt.
Við vorum á leiðinni út að borða þegar Óli og svo Stella birtust á Skype. Kvöldmáltíðinni var því frestað þar til fjölskyldufundum var lokið. Á endandum var klukkan svo margt að við borðuðum á herberginu - það sem til var - hnetur í dós, kartöfluflögur (serveraðar í ísfötu), rauðvínsflaska úr Friendship Store. Hollur matur og góður fyrir framan tölvuna.

Dagurinn í dag var rólegur. Við hittum Sigrúnu Magnúsdóttur sendaherrafrú (við vitum að henni þykir vænt um að titillinn fylgi með) Írlands hér í Kína. Hún kom til okkar á hótelið og við fórum með henni á Pearl Market á svörtum bens með einkabílstjóra (kínverskum - hvað annað).
Það var ótrúlega gaman að hitta Sigrúnu, sem við höfum ekki séð í mörg ár, en gátum okkur þó til að þau séu færri en átta því þá hvarf puttinn hans Jónsa og það mundi Sigrún.
Sigrún bauð upp á lunch, sýndi okkur sendiráðið og fór svo með okkur í bíltúr á sínum 16 ára gamla Heklubíl, sem kominn er til Kína frá Íslandi og þó aðeins ekinn 13.500 km. Sigrún fór með okkur í Gaobeidan Classical Furniture Street. Þar skoðuðum við verskstæði og verslanir sem gera upp gömul húsgögn. Mjög skemmtilegur dagur.

Í gær var það múrinn við Badaling. Þangað fórum við í hópi kínverksra ferðamanna. Við vorum send í bobsleða bæði upp og niður en þess á milli gengum við múrinn sem liðast þarna um fjallshryggina og nutum útsýnis í kristaltæru og sólbjörtu veðri - og íslensku roki. Á eftir var boðið til matar og þar sátum við ein meðal kínverjanna sem hlógu að prjónafærni okkar.

Við höfum náð að skoða Lamahofið sem var notleg upplifun og stefnum nú á Xian með næturlestinni annað kvöld. 
Við höfum sett mikið af ljósmyndum inn á ljósmyndasíðuna okkar og hvetjum ykkur til að skoða og gefa okkur athugasemdir - því það er svo gaman.
  

mánudagur, 6. október 2008

Beijing-Peking-Beijing-Peking-Það er nú það

Vika er liðin síðan við komum fyrst til Peking. 
Þá tók á móti okkur slíkt mannhaf að við urðum hálf skelkuð. Nú viku seinna hefur fólki fækkað til muna því þjóðhátíðarviku Kínverja lauk í gær. Þeim nægir ekki einn 17. júni - nei þeir þurfa heila viku. Kínversku ferðamennirnir eru farnir heim og heldur fleiri hvít andlit sjást nú hlutfallslega.  
Við höfum náð að heimsækja Forboðnu borgina, Himinhofsgarðinn, Sumarhöllina, Olympíuþorpið og að sjálfsögðu borgina sjálfa eða það litla brot sem hægt er að sjá í svona stórborg. 
Það er gott að vera á hóteli við metro stöð, því þó að það sé ódýrt að taka leigubíl þá getur slík ferð tekið langan tíma í þeirri umferð sem er í borginni. Metró er miklu fljótlegri - muna - finna hótel nálægt metró. 
Við erum hægt og rólega að átta okkur á matnum hérna. Kínverjar eru ekki vanir brauðáti og mjólkurdrykkju. Við fundum þó bakarí við hótelið en mest af bakkelsinu er sætt eða brauð fyllt einhverju óskilgreindu gumsi. Yogurt er til en við höfum bara ekki þurft þess með. Í kvöld borðuðum við á veitingastaðnum "Yuelu Mountain Dining Place" vestan við Qian Hai vatnið.
Þeir eru með s.k. Hunan eldhús sem er svo sterkt að meira að segja Sichuanbúar þykir nóg um - og eru þó þekktir fyrir sterkan mat. Við uppgötvuðum þetta of seint. Kjúklingarétturinn reyndist mestmegnis vera chilli og á endanum játuðum við okkur sigruð - þetta gátum við bara ekki borðað. Okkur hæfði best létt soðið spergilkál og tómatar og hrísgrjónin.
Og allt skal borða með prjónum. Það hefur reynst Önnu Siggu erfiðara en mér en mér sýnist þetta allt vera að koma hjá henni.
Af því sem ætlum okkur hér í Beijing/Peking er aðeins eftir að heimsækja Múrinn og Lamahofið. Við höfum tvo daga til þess því við stefnum á að fara til Xian með næturlest á fimmtudagskvöld.

föstudagur, 3. október 2008

Það ku vera fallegt í Kína - þar keisarans hallir skína

Í dag höfum við dvalið fjóra í Beijingborg. Við ákváðum að skipta um hótel eftir þrjá nætur á Bejing King´s Joy hótelinu sem er við Meishi Jie. Það hótel var ágætlega staðsett en frekar spartönsk herbergi, án skápa og ekkert pláss nema á rúminu sjálfu. En staðurinn var fínn - mikið líf - reyndar svo mikið að okkur varð um og ó í allri fólksmergðinni.
Nú erum við komin á Novotel Xinqiao Beijing rétt við Chongwenmen metróstöðina austan við Tiananmen torgið. Fínn staður og betra hótel sem við fengum á ca 610 RMB nóttina.
Við heimsóttum Olympíuþorpið í dag og skoðuðum sértaklega "hreiðrið" og sundhöllina.
Hreiðrið er magnaður arkitektúr. 
Við settum myndir inn á ljósmyndasíðuna okkar - svo endilega kíkja þangað.
Á morgun stefnum við á Sumarhöll keisarans og kannski eitthvað meira ef tími gefst til.  Annars er alveg ótrúlegt hvað maður gengur mikið hérna, borgin er gríðalega stór og þegar maður er lagður af stað yfir götu þá er minnst 1/2 km í næstu gatnamót.
Klukkan að verða 24:00 og tími til að fara sofa.