
Sunnudagur 30.11.2008 - kl 03:00.
Jú þið lásuð rétt, það var haugasjór á Thailandsflóanum í dag. Við lögðum af stað frá bryggjunni hjá Big Buddha á norður hluta Samui eyjar um hálftvöleitið og við tók fimm tíma sigling um flóann með viðkomu á Kho Pha Ngan og Kho Tao og þaðan í land til Chumphon.
Okkur var boðin sjóveikistafla þegar við komum um borð í frekar lítinn bát sem tók um 80 farþega. Við þáðum töfluna og skoluðum henni strax niður. Farþegi fyrir aftan okkur var ekki viss um hvort hann þyrfti töflu - það færi eftir sjólaginu. Starfsmaðurinn sagði að við yrðum að reikna með talsverðri öldu. Við náðum í stóla miðsvæðis í bátnum og vorum heppin með það. Flestir farþeganna áttu skemmri ferð fyrir höndum en við. Flestir fóru af strax á Kho Pha Ngan eftir um klukkustundar siglingu því í kvöld er laugardagspartí á eyjunni og þau mjög vinsæl með bakpokafólks. Aðrir fóru af á Kho Tao til að læra eða stunda köfun. Þaðan var svo tveggja klukkustunda stím í land. Ölduhæðin var u.þ.b. 2-3 metrar og skall á bátnum svo lengst af sá eiginlega ekki út um glugga. Fólk ýmist lá á gólfi eða hékk grænt og grátt í sætum sínum með hvíta plastpoka með frönskum rennilás fyrir það sem út úr þeim gekk. Einhverjir stóðu bara á bakþilfari og héldu sér í borðstokkinn og létu dæluna ganga út yfir hann.
Við vorum feginn landgöngunni - en mest feginn að hafa sloppið að mestu við sjóveikina.
En mikið asskoti er erfitt að pissa við svona aðstæður.
Frá Chumphon tók við tæplega fimm klukkustunda keyrsla í rútu til Hua Hin.
Við erum nú komin inn á herbergið okkar - eða öllu heldur villuna - á Dehevan Dara Resort.
Hótelið er mjög flott og við hlökkum til að vakna í fyrramálið og skoða svæðið.