laugardagur, 1. nóvember 2008

Ho Chi Minh City - Saigon í Vietnam

Við erum þá búin að kveðja Kína. Okkur sýndist á vegabréfsárituninni að ekki hefði má tæpara standa. Við komum inn í Kína að kveldi 28. september og við fórum þaðan 1. nóvember. Ég er ekki skarpur í stærðfræði en mér sýnist þetta 35 dagar - nákvæmlega það sem við lengst máttum vera og ekki máttum við koma hingað til Víetnam fyrr en 1. nóvember.
Við óttuðumst svolítið að koma hingað til Saigon. Í fréttum hefur verið greint frá miklum rigningum, sem reyndust þó mestar í Hanoi og veðurfréttir segja hér vera rigningu með þrumum og eldingum. En svo var ekki - þegar við lentum um fimmleitið var bjart og léttskýjað og ekkert mistur eins svo algengt var að sjá í Kína. Það er að vísu heitt - svona 28 stig.
Við búum á Spring hotel og það tók okkur um 50 mínútur að komast hingað frá flugvellinum, ekki af því að það er svo langt út á flugvöll - nei - það er bar mikil umferð hér í Saigon - vegalengdin er bara um 12-15 km.
Í lagi Stuðmanna segir  "Ég hef aldrei áður séð aðra eins gommu af reiðhjólum" - þetta varð þeim að orði þegar þeir sáu öll reiðhjólin í Köben.  
Í Kína og þá sérstaklega í Beijing í þjóðhatíðarvikunni varð okkur oft að orði "Ég hef aldrei áður séð aðra eins gommu af fólki" og það er satt fjöldinn var yfirþyrmandi.
En nú erum við í Saigon og vitið hvað "Við höfum aldrei séð aðra eins gommu af vélhjólum".
Kínverjar skiptu úr reiðhjólinu beint í bíla, en hér virðist fátæktin meir því hér eru það skellinöðrur, vespur og ýmis vélhjólaafbrigði sem dóminera borgarmyndina.
Kannski maður ætti að opna vélhjólaverslun hér í Saigon.
Saigon er vinalegri borg en flestar borgir sem við höfum heimsótt í Kína - en nú ætlum við að kynna okkur það betur.

Engin ummæli: