Flugvallarbyggingin á Samui eyju
Þegar við lentum var grenjandi rigning.
Landgangi vélarinnar var skýlt með plastsegli og sömu sögu að segja um opin bíl sem sótti farþegana út í vél. Flugvöllurinn á Samui eyju er skemmtilega sveitó hitabeltisflugvöllur. Hann er opinn og það loftar um um salarkynnin en þennan dag var búið að draga niður öll segl og plsastdúka vegna rigningar. Við tókum leigubíl á hótelið okkar Baan Hin Sai Resort sem liggur mitt á milli Chaweng og Lamai strandanna. Þar er sömu sögu að segja - lobbýið var yfirbyggð verönd opin að öðru leiti og herbergin í húsum í brekku neðan við lobbýið og niður að ströndinni.
Og það hélt áfram að rigna.
Við lögðum okkur í tvo tíma - þá hafði stytt upp og við gengum um 50 mínútna leið inn að Chaweng (bænum) því það er ekkert við að vera á hótelinu okkar í grenjandi rigningu. Gestir eru fáir - kannski vegna regntímans en líklega helst vegna samdráttar í ferðamennsku út af heimskreppunni.
Við borðuðum á strandveitingastað á hótelinu um kvöldið, en þá var orðið stjörnubjart og von um betra veður. En því var ekki að heilsa. Ég vaknaði upp við eldglæringar og þrumur um fimmleitið í morgun, síminn var dauður og komin úrhellisrigning.
Við héldum okkur heima til hádegis en fórum þá inn í Chaweng til að gera eitthvað. Settumst inn á Wave sem er frægur staður hér á eyjunni. Þar sátum við, borðuðum, drukkum, lásum og fórum á Internetið og dudduðum okkur í rigningunni, sem alltaf virtist aukast þegar við gáðum til veðurs.
Við uppstyttu fórum við aftur að stað en það dugði skammt. Aftur úrhelli og ég bauð Önnu Siggu á Starbucks til að flýja rigninguna. Þar dvöldum við svo í ca 3 klst og horfðum á rigninguna. Af tilviljun hittum við fimmta íslendinginn á för okkar um Asíu - og það sem er sérkennilegra við þekktum hann. Hann hefur aðsetur hér og bauð okkur í bíltúr á morgun að skoða eyjuna.
Þegar við komum heim á hótelið okkar í kvöld þurftum við bókstaflega að vaða elginn í brekkunni fyrir framan herbergið okkar og komust rennblaut inn úr rigningunni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli