laugardagur, 1. nóvember 2008

Hægláti Ameríkumaðurinn

Það fer ekki á milli mála þegar gengið er um götur Saigon að bók Graham Green "The Quiet American" gerist hér.  Bókin er til sölu hjá öllum götubókasölum í ýmsum útgáfum og ég lét plata inn á mig einni fyrir 4 dollara (80.000 VND). Hún reyndist ljósrituð útgáfa á lélegum pappír en lesanleg. 
Við skoðuðum örlitið af borginni hér nálægt hótelinu í kvöld - aðallega til að fá eitthvað að borða.
Við fundum ítalskan stað "Ristorante Venezia" sem sýndi sig að vera hluti af Continetalhótelinu, ekki ódýrasti staðurinn í Saigon.
Við pöntuðum okkur bruscettu í forrétt og steik í aðalrétt, ís og kaffi á eftir og það sem mikilvægast er - við fengum rauðvín með matnum í fyrsta sinn frá því á siglingunni okkar um Yangtzefljótið. Á Yangtze kostaði ódýrt innflutt rauðvín ca 250 Rmb eða um 4.500 ísk. Hér gátum fengið ágætt ítalskt vín fyrir 250.000 VND eða um 1.750 ísk.
Það var æðislegt að panta nautasteik eftir meira en 6 vikna ferðalag um Rússland, Mongólíu og Kína. Við mundum allt í einu eftir því að við höfum bara ekki borðað steik frá því við fórum af stað frá Köben þan 21. sept. Þetta var því æðislegt og að fá brauð og smér á undan - nú þurfum við bara ostinn. Maturinn í kvöld var kannski ekki ódýrasti maturinn sem við höfum fengið.
Hann kostaði 870.000 VND sem jafngildir 6.000 ísk en vel þess virði og gott að fá eitthvað annað en Kínamat, KFC eða Pizza Hut.
Ekki það að kínverska eldhúsið sé vont - alls ekki. Kínverskur matur er oftast mjög góður - sérstaklega er ég hrifinn af gufusoðna eða léttsteikta grænmetinu þeirra - gæti næstum því lifað af því. Það er bara svo erfitt að fá ekkert annað hvort sem um er ræða morgun- hádegis- eða kvöldmat. Að borða fyllta dumplings og núðlurétti í morgunmat er bara ekki allveg okkar stíll.
Svo getur stundum verið hálf ógeðfellt að horfa á Kínverja borða. Um daginn stoppaði t.d bílstjórinn okkar við vegarkant og keypti núðlurétt í frauðplasti og súpu sem hent var inn um gluggan (beint fyrir framan mig) og súpan var í hálfglærum plastpoka. Ég horfði svo á hann borða núðlurnar sínar og hella svo súpunni í frauðplastformið og drekka hana - því engin var skeiðin og erfitt að borða súpu með prjónum.
Það er líka svolítið skemmtilegt að horfa á Kinverja borða með hníf og gaffli - já já þetta eru kannski fordómar en við höfum nú líka verið Kínverjum aðhlátursefni þegar við reynum árangurslítið að borða með prjónum. Kínverjar halda nefnilega á gafflinum með aðalhendinni (hægri?) og þegar þeir reyna að skera með hnífnum þá hafa þeir hann í vinstri og gengur því frekar illa að vinna á því sem skera skal.

Saigon kemur okkur þægilega á óvart. Við búum allveg í hjarta borgarinnar og kvöldlífið er skemmtilegt.  Saigon er miklu lágreistari en þær borgir sem við höfum ferðast um undanfarið. Hér eru varla háhýsi. Húsin í borginni 4-6 hæðir og borgin virkar aðlaðandi.
 

Engin ummæli: