miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Rolla í fölsku skinni

Við höfum oft notið þess að heyra orðnotkun Bibbu systur minnar og stundum tölum við um Bibbisku. Við vorum með henni og Maddý systur (og köllunum þeirra líka) í Slóveníu í lok ágúst og það er með ólíkindum hvað veltur upp úr Bibbu á stundum. Þó ekki skrýtið eftir meira en 30 ára búsetu í Svíþjóð en hún má eiga það að hún er fljót að búa til orðasamband eða skýringu ef hana vantar rétta orðið - mér skilst að hún geri það líka á sænsku. 
Bibba situr á "sjónarbekknum" þegar hún fer á völlinn - ekki áhorfendastúkunni, hún tekur "kort" á myndvél, verður aldrei bílveik en getur orðið "ökusjúk" og finnst ákaflega rómantískt að horfa á "sólarniðurganginn". Svo eru það orðatiltækin.
" Æfing þrautir reynir margar" = Þolinmæði þrautir vinnur allar.
"Fyrr má nú aldeilis dauðrota en dauðþrota". 
Þetta skráðum við í Slóveníu og fannst fyndið - en hún á þó ekki heiðurinn af yfirskriftinni. Hana á Anna Sigga.
Eitthvað var hún að reyna nálgast úlfinn í sauðargærunni held ég en er þó ekki viss. Og þetta hefur ekkert með ferðalagið okkar að gera en mér fannst ég þurfa að losa aðeins um þessar hugsanir. 
Við eyddum síðasta kvöldinu okkar hér í Saigon eins og því fyrsta.  Við borðuðum góðan mat á La Dolce Vita Cafe á Continental hótelinu og fengum okkur ein G&T á 10. hæðinni á Caravelle hótelinu í miðborg Ho Chi Minh. Á næsta borði sat hæglátur maður - Amrikani held ég. 
Saigon býr yfir ákveðnum sjarma sem ég get ekki alveg skýrt út.
Og nú förum við með eftirmiðdagsvélinni til Bangkok í Thailandi - á vit nýrra ævintýra.

Engin ummæli: