laugardagur, 29. nóvember 2008

Talsverður sjór, skyggni ágætt




Laugardagur - 29.11.2008, kl 12:26
Svona mætti lýsa veðrinu hér á Samui eyju í Thalandi eins og það hefur verið undanfarna þrjá daga. Engin eða aðeins sýnishorn af sól, bara skýjað og vindur með tilheyrandi öldugangi. En hitinn er 27 gráður. Við vitum lítið af ástandinu í Bangkok, ástandið í Mumbai fær meiri athygli. 
Við reyndum einu sinni að berjast á sólbekkjunum hér á hótelinu og tókst að liggja í tvo tíma en vorum þá nokkuð vindbarin.
Toyota pallbíllinn hans Friðriks hefur komið að góðum notum. Við erum búin að keyra nánast til hvern akfæran spotta á eyjunni og þekkjum hana orðið vel. Þetta er falleg eyja og örugglega stórkostleg í sól og blíðu.
Vegir eru margir sundurrofnir hérna vegna rigninganna en það hefur ekki komið að sök.
Við fórum í gær á Bophut golfvöllinn. Hann er níu holu par 3 völlur, svolítill sveitarvöllur en skemmtilegur.  Borguðum 2 x 1.450 Thb í greenfee ásamt kylfumey og kylfupoka. Anna Sigga spilaði á 19 pkt en Jónsi á 14 pkt. Við vorum bara lukkuleg og skemmtum okkur vel. Sáum risakönguló við leit í röffinu og eiturgræna slöngu á leið yfir brú að 8. braut.
Mynd af slöngunni verður sett á netið á morgun ásamt fleiri myndum héðan af eyjunni.
Erum að bíða eftir bíl til að keyra okkur á ferjulægið. Förum til Hua Hin með bát og rútu í dag og verðum ekki komin fyrr en um miðnættið að staðartíma.

Engin ummæli: