sunnudagur, 2. nóvember 2008

Caravelle Hótelið í Saigon

Við gengum um miðborg Saigon í dag. Hún er ekkert sérlega stór en ber ákaflega sterk einkenni þess að hafa verið áhrifasvæði Frakka. Húsbreiddir eru litlar við flestar göturnar og götumyndir geta verið ansi fjölbreyttar - sem er bara skemmtilegt og oft á tíðum aðlaðandi.
Þetta er svolítið eins og Reykjavík - misleit borgarmynd en fyrir vikið mjög fjölbreytt og skemmtileg.
Við fórum inn á sýningu sem sýndi niðurstöður hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag Saigon. Það er náttúrulega ógjörningur að setja sig inn í meginviðfangsefni slíkrar samkeppni á stuttum tíma en að sama skapi ákaflega sorglegt að sjá alþjóðlega strauma í skipulagi setja spor sín hér eins og annars staðar. Ef fer sem horfir mun Saigon breytast úr 2-3 og 4-6 hæða fjölbreyttri og vel þéttbyggðri borg í háhýsahrylling sem á undaförnum árum hefur verið svarið við borgarþróun um allan heim. Ég sé ekki gæði lausnarinnar og sé ekki hvernig þessi svörun við spurningunni geti leitt af sé borg sem er meira aðlaðandi en sú sem nú er. Annað hvort er spurningin röng eða öll svörin. Mér finnst eins og arkitektar heimsins verði að fara að taka sér tak og endurskoða afstöðu sína til borgarinnar og skipulags hennar. 

Ég ólst upp við daglegar fréttir frá Víetnamstríðinu og framan af við frásagnir af hetjudáðum Bandaríkjamanna í Víetnam. Víetnam og sérstaklega Saigon sem var "okkar" megin bjó yfir einhverri dulúð sem vakti snemma drauminn um "þangað langar mig að koma". Og hingað erum við komin. Áttuðum okkur ekki á því fyrr en eftir á að fyrsta kvöldið okkar borðuðum við á leiksviði "Hægláta Ameríkumannsins" á sjálfu Continental hótelinu í Sagion. Í kvöld heimsóttum við svo Caravellehótelið sem líka varð frægt í Víetnamstríðinu. Þar sátu erlendir fréttamenn á þaki hótelsins og skrifuðu fréttir úr stríðinu og sérstaklega er hótelið þekkt vegna hörmulegrar sprengingar sem varð þar og varð um 100 manns að fjörtjóni í águstlok 1964. Í kvöld fórum við á barinn á 9 hæðinni og þaki hótelsins. Þar drukkum við gin í tónic, hlustuðum á Salsatónlist ásamt öllum hinum ferðamönnunum sem gista Saigon þessa dagana og horfðum út yfir borgina.
Ég er held ég soldið skotinn í Saigon.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Komst að þessu bloggi núna áðan í gegnum gömlu hjónin.
Ansi spennandi að koma á sögulegar slóðir í Víetnam.
Held að það sé eitt af þeim löndum sem ég hefði áhuga á að sjá ef ég tæki mér svipað ferðalag og þið eruð að taka, sem ég vonandi fæ tíma til.