fimmtudagur, 9. október 2008

Síðasta kvöldmáltíðin í Peking

Þetta er ekkert kristilegt.
Við vorum á leiðinni út að borða þegar Óli og svo Stella birtust á Skype. Kvöldmáltíðinni var því frestað þar til fjölskyldufundum var lokið. Á endandum var klukkan svo margt að við borðuðum á herberginu - það sem til var - hnetur í dós, kartöfluflögur (serveraðar í ísfötu), rauðvínsflaska úr Friendship Store. Hollur matur og góður fyrir framan tölvuna.

Dagurinn í dag var rólegur. Við hittum Sigrúnu Magnúsdóttur sendaherrafrú (við vitum að henni þykir vænt um að titillinn fylgi með) Írlands hér í Kína. Hún kom til okkar á hótelið og við fórum með henni á Pearl Market á svörtum bens með einkabílstjóra (kínverskum - hvað annað).
Það var ótrúlega gaman að hitta Sigrúnu, sem við höfum ekki séð í mörg ár, en gátum okkur þó til að þau séu færri en átta því þá hvarf puttinn hans Jónsa og það mundi Sigrún.
Sigrún bauð upp á lunch, sýndi okkur sendiráðið og fór svo með okkur í bíltúr á sínum 16 ára gamla Heklubíl, sem kominn er til Kína frá Íslandi og þó aðeins ekinn 13.500 km. Sigrún fór með okkur í Gaobeidan Classical Furniture Street. Þar skoðuðum við verskstæði og verslanir sem gera upp gömul húsgögn. Mjög skemmtilegur dagur.

Í gær var það múrinn við Badaling. Þangað fórum við í hópi kínverksra ferðamanna. Við vorum send í bobsleða bæði upp og niður en þess á milli gengum við múrinn sem liðast þarna um fjallshryggina og nutum útsýnis í kristaltæru og sólbjörtu veðri - og íslensku roki. Á eftir var boðið til matar og þar sátum við ein meðal kínverjanna sem hlógu að prjónafærni okkar.

Við höfum náð að skoða Lamahofið sem var notleg upplifun og stefnum nú á Xian með næturlestinni annað kvöld. 
Við höfum sett mikið af ljósmyndum inn á ljósmyndasíðuna okkar og hvetjum ykkur til að skoða og gefa okkur athugasemdir - því það er svo gaman.
  

Engin ummæli: