"Toys - The real thing" myndaverk á sýningunni á MOCA
Kvöldljós á Nanjing Lu Dong
Það var ekki með neinum sérstökum söknuði að við kvöddum Shanghai. Í gær fórum við með öndergrándinum niður Hua Hai Zhong Lu og gengum það upp í garðana "Peoples park" og Renmin garðinn sem liggur að Nanjing Lu þar sem hún hættir að vera göngugata.
Garðarnir í Shanghai eru fallegir eins og við höfum reyndar séð í fleiri borgum. Bolli sagði okkur að Kínverjar væru snillingar í að gera garða. Hann sagði okkur frá svæði sem hafði verið girt af og öll húsin innan girðingar rifnar. Að því loknu var svo gerður garður og allt fullfrágengið á innan við sex mánuðum. Þetta leika ekki margir eftir þegar haft er í huga að tré og gróður líta ekki út fyrir að vera nýplöntur - nei þetta er 10-15 m há tré í fullum blóma, fullvaxta klipptur runnagróður, tjarnir og allt tilheyrandi. Við heimsóttum lítið nútímalistasafn fyrir aftan óperuna sem heitir MOCA - fínt lítið safn og fín sýning. Við gengum svo austur Nanjing Lu inn í kvöldið og upplifðum þessa miklu verslunargöngugötu klæðast kvöldbúningum og allt lýstist upp. Við borðuðum kínverskan mat upp á fimmtu hæð veitingastaðar við Nanjing Lu - fengum ágætan mat á góðu verði (innan við 100 Rmb). Að því loknu gengum við heim á hótel, sóttum flugmiðana okkar til Guangzhou, upp á herbergi og pökkuðum.
Dagurinn í dag var ferðadagur. Við vorum komin á völlinn um 10 leitið og áttum flug um 12 leitið. Síðan tók við rúmlega tveggja tíma flug og svo klst í flugvallarrútu inn á hótelið sem við höfðum pantað. Það hótel (JIN Zhou International buisness hotel) reyndist ömurlegt þrátt fyrir sínar 4* svo við skiluðum herberginu aftur og tókum taxa niður á Riverside Hotel við JanJiang Zhong Lu. Það hótel var miklu betra og reyndar örlítið ódýrara. Okkur líður vel á herberginu okkar á 19. hæð sem snýr út að Perluá og verðum hér í þrjár nætur þangað til við flúgum til Saigon í Vietnam.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli