mánudagur, 6. október 2008

Beijing-Peking-Beijing-Peking-Það er nú það

Vika er liðin síðan við komum fyrst til Peking. 
Þá tók á móti okkur slíkt mannhaf að við urðum hálf skelkuð. Nú viku seinna hefur fólki fækkað til muna því þjóðhátíðarviku Kínverja lauk í gær. Þeim nægir ekki einn 17. júni - nei þeir þurfa heila viku. Kínversku ferðamennirnir eru farnir heim og heldur fleiri hvít andlit sjást nú hlutfallslega.  
Við höfum náð að heimsækja Forboðnu borgina, Himinhofsgarðinn, Sumarhöllina, Olympíuþorpið og að sjálfsögðu borgina sjálfa eða það litla brot sem hægt er að sjá í svona stórborg. 
Það er gott að vera á hóteli við metro stöð, því þó að það sé ódýrt að taka leigubíl þá getur slík ferð tekið langan tíma í þeirri umferð sem er í borginni. Metró er miklu fljótlegri - muna - finna hótel nálægt metró. 
Við erum hægt og rólega að átta okkur á matnum hérna. Kínverjar eru ekki vanir brauðáti og mjólkurdrykkju. Við fundum þó bakarí við hótelið en mest af bakkelsinu er sætt eða brauð fyllt einhverju óskilgreindu gumsi. Yogurt er til en við höfum bara ekki þurft þess með. Í kvöld borðuðum við á veitingastaðnum "Yuelu Mountain Dining Place" vestan við Qian Hai vatnið.
Þeir eru með s.k. Hunan eldhús sem er svo sterkt að meira að segja Sichuanbúar þykir nóg um - og eru þó þekktir fyrir sterkan mat. Við uppgötvuðum þetta of seint. Kjúklingarétturinn reyndist mestmegnis vera chilli og á endanum játuðum við okkur sigruð - þetta gátum við bara ekki borðað. Okkur hæfði best létt soðið spergilkál og tómatar og hrísgrjónin.
Og allt skal borða með prjónum. Það hefur reynst Önnu Siggu erfiðara en mér en mér sýnist þetta allt vera að koma hjá henni.
Af því sem ætlum okkur hér í Beijing/Peking er aðeins eftir að heimsækja Múrinn og Lamahofið. Við höfum tvo daga til þess því við stefnum á að fara til Xian með næturlest á fimmtudagskvöld.

Engin ummæli: