fimmtudagur, 23. október 2008

Thai Massage í Yangshuo

Ég hef eiginlega aldrei farið í nudd frá því ég hætti að synda á átjanda árinu. Ég prófaði að vísu baknudd í vor þegar við vorum í golfferð á Spáni, en fannst það óttalega lítilfjörlegt.
Við vöknuðum upp síðla nætur við þrumur og eldingar hér í Yangshuo og dag hefur rignt nær látlaust. Því var lítið um að vera og við hættum aftur við bambusbátasiglingu og reiðhjólaferð og Anna Sigga hálfpirruð á öllu þessu kíneríi, langaði bara í almennilegt rúnnstykki með osti og gott kaffi. En hér í Yangshuo - "dream on" - bara kínamatur í morgun-, hádegis- og kvöldmat.
Til að gera eitthvað skemmtilegt ákváðum við að fara saman í nudd - ekki þorði ég að senda Önnu Siggu aftur eina eftir æfintýrið í Guilin.
Niðri á Vesturgötu hér í Yangshuo er  þessi líka frábæra nuddstofa og hægt að velja úr 20 mismunandi tegundum nudds.

Við völdum Thælenskt 90 mínútna nudd.

Vistarverurnar voru kannski ekki þær hreinlegustu en verðið var viðunandi jafnvel á nýja genginu. Við vorum leidd inn í vistarverur og tvæ örsmáar kínverskar stúlkur byrjuðu óðara að berja á okkur. Mig undraði að ekki var ætlast til þess að við færum úr neinum fötum - við vorum bara nudduð í fötunum og hélt að það væri bara ekki hægt. En því var öðru nær. Þessar örgrönnu og smáu stúlkur hófust handa við að nudda nánast til hvern blett líkamans frá iljum til höfuðs. Þær boruðu fingrum og tám í mig á viðkvæma staði (og þá á ég ekki við við þennan eina viðkvæma) þannig að maður hálfemjaði. Þær toguðu og teygðu og nudduðu meira að segja fingurgómana. Þegar útlimanuddinu var lokið hófst fóddanudd á bakið. Nuddstúlkan steig upp á bakið á mér og gekk þar um á heimavelli - eða eiginlega dansaði upp á tá og niður á hæl og böðlaðist á bakinu á mér á jörkunum. Mér fannst þetta eiginlega bæði stórfyndið og um leið dulítið vont, en líður nú öllu betur eftir 90 mínútna meðferð.

Engin ummæli: