laugardagur, 25. október 2008

Ferðamannafælur í Shanghai

Við komum til Shanghai síðla dags í gær eftir tveggja og hálfs tíma flug frá Guilin. Það tók okkur tæpa tvo tíma að komast á flugvöllinn frá hótelinu okkar í Yangshuo. Hitinn var aðeins 14 stig og það rigndi hressilega þegar við lögðum af stað frá Yangshuo og enn meira þegar við komum á flugvöllinn. Í Shanghai var hinsvega þurrt og yfir 20 stiga hiti. 
Við komum á hótelið okkar - The Bund Riverside" á Bejing Lu East um hálfsexleitið. Okkur var að sjálfsögðu boðinn bíll á flugvellinum á 200 RMB en enduðum með að borga 60 RMB í bíl sem ekið var skv. mæli.
Hótelið var ágætt en okkur finnst hótelin sem við höfum verið á hér í Kína ekki vera sérlega hreinleg þrátt fyriri að þau séu 4* hótel. Við fórum í gærkveldi niður á Nanjing Lu sem er "göngugatan" hér í Shanghai. Þar  var svo mikil ljósadýrð að það minnti á Times Square í New York. 
Vi erum orðin svolítið dösuð eftir tæplega sex vikna ferðalag og sama á við um kínverska matinn - það erfitt fyrir íslenskar brauð- og ostætur að fá ekki ost og alls ekki alltaf gott brauð.
Okkur finnst allt í lagi að borða kínverkst á kvöldin og í hádeginu en það er of mikið að borða kínverskt í morgunmatinn líka.
Annað sem líka er farið að fara óhemjulega í taugarnar á okkur eru "ferðamannafælurnar" sem reyna að pranga inn á manni úrum, bolum, leikföngum, töskum - já næstum hverju sem er. Þetta fólk er alls staðar og maður gengur varla 10 metra án þess að verða ávarpaður af einni fælunni. Ég er orðinn svo forhertur að ég dæsi og lygni aftur augunum og hristi höfuðið og svara jafnvel ruddalega  til þess að koma þessum andskotum í burtu en það hefur ekkert að segja.  
Við erum að fara yfir ferðaáætlunina okkar og hugsanlega endurskoða hana. Við erum hætt við að fara til Japan að sinni og það kann að enda með því að við förum beint héðan til Thailands án viðkomu í Vietnam.
Það hvorki bætir né léttir að lesa fréttir af efnahagsástandinu heima og spár um hugsanlega frekari lækkun íslensku krónunnar eru ekki uppörvandi. Okkur hefur þó ekki enn verið neitað um viðskipti með kortin okkar en upplýsingar um gengi eru mjög misvísandi og ekki hægt að kaupa gjaldeyri eins og ástandið er.
Við vonum þó það besta.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

tja I kan jo begynde at oeve jer og faa nogle gode ideer til hvordan vi kan plukke penge af alle de turister der efter sigende er paa vej hertil fordi det er saa billigt!

Herfra er at fortaelle at alt er druknet i sne - det bare sner og sner, skal vist til finde langrendsskiene frem.

Kan I have det saa godt

mange hilsener Birgit